BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þróttur lá.

21.02.2018

Blikar mættu 1.deildarliði Þróttar í Lengjubikarnum í gærkveldi. Leikurinn fór fram í Egilshöll. Þetta var annar leikur okkar mann í mótinu og nú var að sjá hvort menn næðu að fylgja eftir stórsigrinum gegn ÍR á dögunum. Blikar stilltu upp þessu liði í byrjun og skiptingar voru fjölmargar eins og sjá má á vefsíðu Úrslit.net

Blikar mættu kröftugri mótspyrnu í upphafi leiks og voru í smá vandræðum með að ná upp spili. Fyrir vikið voru menn að reyna mikið upp á eigin spýtur. Það gekk misjafnlega. Þannig að þetta var basl í byrjun en lagaðist eftir því sem á leið. Á 25. Mínútu náðu Blikar laglegri skyndisókn og Gísli brunaði í átt að marki Þróttar en var grófleg felldur við vítateig. Sá brotlegi sá gult spjald með réttu. Gísli tók spyrnuna sjálfur og hún var varin af markmanninum en hann hélt ekki boltanum sem barst út í teiginn og þar beið Tokic og sendi hann af yfirvegun í netið. Staðan 1-0 fyrir okkar menn.
Mark númer 2 kom eiginlega strax í kjölfarið. Blikar fengu innkast á vallarhelmingi Þróttar, við vítateigshorn hægra megin, og sundurpiluðu vörn andstæðinganna úr innkastinu. Davíð komst upp að endamörkum og sendi boltann fyrir markið þar sem Tokic kom á ferðinni og sneidd´ann á fjærstöngina. Þar kom svo Arnþór Atli og lagði boltann í netið úr nokkuð þröngu færi. Vel gert og staðan orðin 2-0.

Fleiri mörk voru ekki gerði í fyrri hálfleik og Blikar fóru inn með góða forystu eftir svona lala spilamennsku lengst af. En það eru mörkin sem telja.

Síðari hálfleikur var mun betri af hálfu Blika og betri bragur á liðinu. Skipti engu þó gerðar væru 6 breytingar á liðinu. Tempóið var ágætt og inn á milli sáust glimrandi samleikskaflar. Lítið um svokallaðar ,,KR spyrnur“ sem stundum eru kallaðar og þykja ekki fallegur fótbolti. En mörkin létu á sér standa allt þar til Gísli brá undir sig betri fætinum þegar skammt var til leiksloka og einlék frá miðju upp að vítateig Þróttar og lét vaða á markið af 20 metra færi. Í netinu lá boltinn og staðan orðin 3-0.
Næsta mark kom svo 6 mínútum seinna þegar Sveinn Aron skoraði eftir flotta sókn sem hann hóf sjálfur með því að vinna boltann við miðlínuna, klobba einn og bruna svo áfram með boltann. Sendi svo út á kantinn á Aron og hann skilaði boltanum snimmendis til baka inn í teiginn þar sem Sveinn var mættur og afgreiddi knöttinn í netið. 4-0. Og nú var ekki nokkur friður í húsinu. Fimmta mark Blika kom skömmu síðar þegar fyrrnefndur Sveinn Aron straujaði upp hægri vænginn og lék á 2 andstæðinga áður en hann sendi svo utanfótar snuddusendingu fyrir markið. Markvörðurinn virtist ætla að hirða boltann en náði því þó ekki og boltinn barst út í teiginn þar sem Arnór Gauti var einn og óvaldaður og hann renndi boltanum af yfirvegun í markhornið. 5-0 og nú héldu flestir að dagskránni væri lokið en í uppbótartíma bættu Blikar við einu marki til viðbótar og enn var Arnór Gauti á ferðinni eftir góða skyndisókn Blika sem lauk með því að Sveinn Aron sendi boltann inn á Arnór og hann kláraði færið vel með góðu skoti.
Lokatölur 6-0 fyrir Blika og skal viðurkennast að eftir misjafna spilamennsku framan af leik var þessi sigur kannski í stærra lagi, en alls ekki ósanngjarn.

Blikar voru mun betri í þessum leik en áttu ekki neinn stjörnuleik. Mótstaða Þróttar í byrjun virtist koma okkar mönnum eilítið á óvart og fara í taugarnar á þeim en svo náðu þeir sér vel á strik þegar leið á leikinn og þá sölluðust mörkin inn og vörnin var nokkuð sannfærandi.

Okkar menn hafa farið vel af stað í undirbúningstímabilinu og mega nú búast við að mótspyrnan fari harðnandi. Bæði er að við erum að fara að eiga við sterkari andstæðinga og svo hitt að nú má búast við að liðin fari að liggja þétt til baka til að forðast skellinn. Eftir stórsigra í síðustu 2 leikjum og nokkuð gott gengi í vetur ætti það ekki að koma á óvart, en það þarf samt að eiga við það og leysa og nú gæti farið að reyna meira á vörn og markvörslu þegar liðin fara að beita skyndisóknum meira og gíra sig upp í föst leikatriði þegar færi gefst. Þá þurfa menn að vera  á tánum.

En þetta er allt á réttri leið, það er greinilegt og það er gaman að sjá hvað breiddin er mikil í hópnum. Það er greinilega orðin meiri samkeppni víða um að vera ,,Aðal“.

Næsti leikur er gegn Magna frá Grenivík n.k. laugardag kl. 14:15 í Fífunni.

Áfram Breiðablik !

OWK

Umfjallanir netmiðla. Leikurinn í heild og mörkin í boði BlikarTV. 

Til baka