BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tap þrátt fyrir glæsimörk

14.01.2017

Okkar drengir riðu ekki feitum hesti frá fyrstu viðureign okkar í Fótbolta.net mótinu á þessu ári. Eyjapeyjar mættu í Fífuna og lögðu okkur 2:3. Staðan í leikhléi var 0:2 fyrir ÍBV og síðan skoruðu gestirnir sigurmarkið á lokamínútu leiksins. Mörk okkar pilta settu Alfons Sampsted og Höskuldur Gunnlaugsson.

Einhver doði virtist vera yfir okkar piltum í fyrri hálleik og fengum við mark á okkur strax á sjöttu mínútu leiksins. Eftir 23 mínutur tvöfaldaðist síðan forysta þeirra hvítklæddu. Setja verður spurningamerki við varnarleik okkar pilta og markvörslu Gulla í báðum þessum mörkum. 

Eitthvað hefur Addi lesið vel yfir mönnum í leikhléi því okkar piltar komu mun frískari til leiks í síðari hálfleik. Fljótlega minnkaði bakvörðurinn ungi Alfons Sampsted muninn með gullfallegu marki. Hann fékk þá gullfallega sendingu inn fyrir vörn Eyjamanna, vippaði knettinu fram hjá markverði Eyjamanna og renndi knettinum í markið. Þarna sýndi hann og sannaði hve mikill íþróttamaður hann er.

Ekki var mark Höskuldar rúmri mínutu síðar síðra. Atli Sigurjóns átti þá snilldarsendingu langt utan af velli og þar var Krulli krull mættur og vippaði knettinum yfir markvörðinn.

En þar með var eins og allur kraftur væri úr okkar mönnum. Vestmanneyingar sóttu í sig veðrið og náðu að skora sigurmarkið á 90 mínutu. Að vísu fengum við gullið tækifæri til að jafna í uppbótartíma þegar Atli skaut í slá úr aukaspyrnu en eftir mikinn hamagang í teignum náðu gestirnir að hreinsa.

Því miður vantaði nokkuð upp  á kraftinn í heild í okkar menn. Sóknarleikur okkar var bitlaus og vantaði meiri hugmyndaauðgi að brjóta niður sterka varnarlínu þeirra hvítklæddu.

En vonandi sýna drengirnir okkar meiri kraft og ákveðni í næsta leik gegn Keflvíkingum í Reykjaneshöllinn næst komandi laugardag.

-AP

Til baka