BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt tap í Garðabænum

09.05.2014
Leikskýrsla.
 
Það voru súrir Blikar sem yfirgáfu Garðabæinn eftir að hafa tapað 1:2 fyrir KR í hörkuleik á gervigrasvellinum í nágrannasveitarfélaginu okkar. Þrátt fyrir tapið var allt annað að sjá til þeirra grænklæddu í þessum leik miðað við leikinn gegn FH á mánudaginn.  Mark okkar pilta setti Elfar Árni Aðalsteinsson seint í síðari hálfleik eftir snilldarsnúning Árna Vill úti á velli. En því miður dugði þetta mark ekki til að ná í stig í leiknum því Blikabaninn Óskar Örn Hauksson skoraði sigurmark þeirra röndóttu í síðari hálfleik.
 
Blikar voru ekki vaknaðir þegar gestirnir úr  Vesturbænum settu á þá mark strax á fyrstu mínútu. Þar sofnaði vörnin illilega. Eins og gefur að skilja tók það okkar drengi smá tíma að jafna sig af þessu sjokki. En smátt og smátt unnum við okkur inn í leikinn og var jöfnunarmark okkar verðskuldað.  Við vorum mun betri seinni hlutann af fyrri hálfleiknum og með smá heppni hefðum við getað sett annað mark.
 
Í síðari hálfleik virtist aðeins draga af okkar mönnum og hleyptum við þeim röndóttu of mikið inn í leikinn. Þeir sóttu einkum upp kantana og þar kom að því að Blikabaninn Óskar Örn Hauksson skoraði með hörkuskoti sem Gunnleifur réði ekki við. Blikar sóttu í sig veðrið og gerðu harða hríð að marki KR-inga en það dugði ekki til. Svekkjandi tap því staðreynd og við því einungis með 1 stig að loknum tveimur umferðum.
 
En það þýðir ekkert að hengja haus. Við erum búnír að spila við tvo sterkustu lið landsins og það er stígandi í leik Blikaliðsins. Miðjumennirnir, Finnur Orri og Andri Rafn, sýndu mikla yfirferð og þurfa bara að vera ákveðnari fram á við. Elfar Freyr var mættur í byrjunarliðið og virðist vera að nálgast sitt gamla góða form. Tók flesta skallabolta í vörninni og gaf ekki tommu eftir í varnarleiknum. Elfar var líka hársbreidd frá því að skora jöfnunarmark leisins á lokamínútunum. Damir og hann virðast vera að ná vel saman í miðju varnarninnar og eiga bara eftir að verða betri.  Páll Olgeir sýndi lipra takta í fyrri hálfleik og sýndi að hann er einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins. Það vantar hins vegar meiri brodd í sóknarleikinn hjá Blikaliðinu. Við vorum ekki að skapa okkur nægjanlega mörg færi og það verkefni þjálfarana að bæta úr því.
 
Stuðningshópur Blika, sem nefna sig nú ,,Copacapana“ stóð sig með miklum sóma í stúkunni og studdu við bakið á liðinu allan tímann.  Auðvitað ætti hinn almenni Bliki að taka betur undir með Cópacabana en það kemur með betra gengi Blikaliðsins. Næsti leikur Blika er gegn Keflavík suður með sjó á mánudaginn kl.19.15 og þar ætla auðvitað allir Blikar að mæta!
 
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar.
 
AP

Til baka