BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Skiptur hlutur í Fífunni

17.03.2018

Breiðablik og KR skiptu bróðurlega stigunum á milli sín í 1:1 jafntefli í síðasta leik liðanna í Lengjubikarnum á þessu ári. Úrslitin voru líklegast sanngjörn þótt að Blikar hefðu átt að fá víti skömmu fyrir leikslok þegar brotið var á Andra Rafni þegar hann var að sleppa í gegnum vörn þeirra röndóttu. Þessi úrslit þýða að KA sigrar í riðlinum jafnvel þótt norðanmenn eigi einn leik eftir. ​

Liðsskipan og atburðir í boði Úrslit.net

KR-ingar byrjuðu leikinn betur og sóttu nokkuð gegn okkar mönnum án þess þó að skapa sér nein sérstök færi.  Okkar piltar náðu þó vopnum sínum fljótlega og var leikurinn í nokkuð góðu jafnvægi það sem eftir lifði hálfleiksins. Það dróg þó til tíðinda á 26. mínútu þegar Blikar náðu fínni sókn og Arnþór Ari Atlason setti flott mark á gestina eftir góðan undirbúning Willums Þórs Willumssonar og stoðsendingu Sveins Arons Guðjohnsen.

Við vorum eitthvað hálf-sofandi í byrjun síðari hálfleiks og tóku KR-ingar í raun öll völd á vellinum fyrstu 20 mínútur hálfleiksins. Það kom því ekki á óvart að þeir náðu að jafna leikinn fljótlega. Gulli hafði varið vel í dauðafæri en réð ekki við skalla eins þeirra röndóttu. En sem betur fer hresstust okkar drengir fljótlega og áttu nokkur hálf-færi sem því miður nýttust ekki. En svo vorum við rændir augljósri vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok og var það hugleysi hjá annars ágætum dómara leiksins að þora ekki að benda á punktinn.

Blikar geta verið þokkalega ánægðir með þennan leik því það vantaði sterka pósta í Blikaliðið. Damír og Kolli voru í banni og Gísli og Viktor Örn léku ekki vegna smávægilegra meiðsla. Gulli sýndi aftur gamalkunna takta á milli stanganna og varði meðal annars tvisvar sinnum stórkostlega. Óskar Jónsson og Alexander Helgi sýndu það og sönnuðu að þeir eru við það að verða mjög samkeppnisfærir á Pepsí-deildarsviðinu.

Þar með er öllum formlegum undirbúningsleikjum lokið að þessu sinni. Strákarnir fara nú að undirbúa sig fyrir æfingaferð til Spánar og svo hefst Pepsí-deildin hjá okkur eftir rúman mánuð þ.e. laugardaginn 28. apríl. Þá fáum við ÍBV í heimsókn og verður það hörkuviðureign.

Umfjallanir netmiðla.

-AP

Til baka