BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Skiptur hlutur í Fífunni

19.11.2016

Blikar og Fjölnir skildu jöfn 2:2 í fyrsta leik BOSE-mótsins í knattspyrnu. Bæði lið tefldu fram blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum og svo eldri jöxlum inn á milli. Gestirnir úr Grafarvogi voru yfir í leikhléi 1:2 en við áttum allan síðari háfleikinn og jöfnuðum verðskuldað 2:2. Það voru þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Ólafur Hrafn Kjartansson sem settu mörk okkar Blika. 

Við byrjuðum betur og Höskuldur kom okkur yfir með ágætu marki strax á fimmtu mínutu. En því miður jöfnuðu þeir gulklæddu fljótlega eftir slysaleg mistök í vörninni. Við vorum meira með boltann í háfleiknum en Fjölnismenn voru stórhættulegir í skyndisóknum sínum. Þannig kom síðari mark þeirra. Við misstum boltann á þeirra vallarhelmningi og þeir geystust upp og spiluðu sig vel í gegnum vörnina okkar. 

Í síðari hálfleik komu margir ungir og frískir leikmenn inn á og við tókum leikinn gersamlega yfir. En það vantaði aðeins upp á broddinn í sóknarleiknum og því náðum við ekki að skapa okkur mjög mörg færi þrátt fyrir mikla yfirburði úti á vellinum. En sem betur fer náði Ólafur Hrafn að jafna leikinn með ágætu skoti úr vítateignum og þar við sat.  

Nokkrir af ungu leikmönnunum okkar náðu að setja mark sitt á leikinn. Ernir Bjarnason, Ólafur Hrafn Kjartansson og Óskar Jónsson sýndu það og sönnuðu að þeir eru með betri miðjumönnum landsins á þessum aldri. Það stefnir því svaka baráttu um miðjustöðurnar í liðinu næsta sumar. Einnig áttu þeir Guðmundur Friðriksson og Atli Sigurjónsson ágætan leik.  Höskuldur var lipur og yljaði áhorfendum nokkrum sinnum með hraða sínum og leikni.  

Myndaveisla í boði BOSE og Fótbolta.net

Næsti leikur liðsins í mótinu er gegn Víkingum í Egilshöllinni sunnudaginn 27. nóvember kl.18.00.

Til baka