BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Skiptir ekki máli hvernig kötturinn sé á litinn!

11.08.2015
Fleyg orð Deng Xioaping leiðtoga Kína á árunum 1978-1992 um að það skipti ekki máli hvernig kötturinn sé á litinn heldur hvort hann veiði mýsnar komu upp í huga Blika eftir 0:1 vinnusigur á Valsmönnum í Laugardalnum. Við getum endalaust velt okkur upp úr því  hvort við spiluðum nógu vel, hvort Kiddi eða Arnþór hefðu átt að skora úr dauðfærum sínum en aðalatriðið er að Glenn var réttur maður á réttum stað á réttum tíma þegar Guðjón Pétur skaut á markið. Knötturinn fór í netið hjá andstæðingunum og við fórum með 3 stig í Kópavoginn!
 
Þjálfararnir stilltu upp óbreyttu liði frá sigurleiknum gegn Keflavík. 
1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m) 
3. Oliver Sigurjónsson 
4. Damir Muminovic 
5. Elfar Freyr Helgason 
7. Höskuldur Gunnlaugsson 
8. Arnþór Ari Atlason 
10. Guðjón Pétur Lýðsson 
17. Jonathan Ricardo Glenn 
22. Ellert Hreinsson 
23. Kristinn Jónsson 
29. Arnór Sveinn Aðalsteinsson 
 
Sjúkralisti: Engin
Leikbann: Engin
Leikskýrsla: Valur - Breiðablik 10.8.2015
BlikarTV: Útvarpslýsing
 
Atli, Guðmundur og Andri Rafn komu síðan inn á síðari hálfleik fyrir þá Oliver, Arnór og Guðjón Pétur.  Allir varamennirnir stóðu vel fyrir sínu. Þó verður að hrósa Atla sérstaklega sem tók stöðu Guðjóns Péturs á miðjunni og sýndi góða takta í varnarvinnunni þar. 
 
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru hinar bestu í Laugardalnum. Lofthiti var að vísu ekki mjög mikill en völlurinn rennisléttur enda nánast ekkert notaður til knattspyrnuiðkunar þessa dagana. Einstaka pílatar sáust á kvöldhimninum en máninn óð ekkert í skýjum.
 
Áhorfendur voru tæplega eitt þúsund og flestir úr Kópavoginum. Það er áhyggjuefni fyrir Valsmenn hve stuðningur við liðið er dapur. Liðið hefur verið að spila fínan bolta, ná ágætis árangri í deildinni og komið í úrslit í  bikarnum. Samt sem áður mæta fáir á leiki liðsins. Vonandi hressist Eyjólfur fyrir bikarúrslitaleikinn um næstu helgi og sendum við Hlíðarendapiltunum baráttukveðjur fyrir leikinn. Kópakabanahópurinn okkar mætti hins vegar með miklum sóma í Laugardalinn og lét vel í sér heyra. Að vísu höfðu örfáir í hópnum innbyrt aðeins of mikið af söngolíu fyrir leik og er það eitthvað sem forsvarsmenn hópsins þurfa að passa.
 
Á knattspyrnuvellinum virkuðu okkar drengir hins vegar aðeins vankaðir eftir sigurinn gegn Keflavík og var eins og menn héldu að leikurinn myndi vinnast í hlutlausum gír. Einnig var taktíkin ekki ganga upp framan af leik þ.e. að spila aftarlega og reyna skyndisóknir. Þjálfararnir skiptu því um gír skömmu fyrir leikhlé og létu liðið spila framar á vellinum. Drengirnir hans séra Friðriks voru því mun meira með boltann, pressuðu okkur ofarlega og náðum við aldrei upp almennilegu spili í fyrri hálfleiknum. Að visu voru heimapiltar ekki að skapa sér nein færi enda mjög lítill broddur í sóknarleiknum. Þar að auki spilaði varnarlína okkar vel eins og í flestum leikjum í sumar. En skömmu fyrir leikhléi skilaði breytt skipulag okkur sigurmarkinu. Damir ruddist upp vinstri kantinn eins og alvöru vængmaður, tæklaði sig í gegnum nokkra Valsmenn og renndi knettinum inn á miðjuna. Þar fékk Guðjón Pétur knöttinn og lét vaða á markið. Glenn kom þá aðvífandi eins og Léttfeti í sögunni góðu sem reið berbakt hraðar en vindurinn á hálfgerðum villihesti sínum og gat rakið slóðir allra manna best. Einnig gat hann lesið langar og örlagaríkar sögur út úr brotinni trjágrein eða bældu grasi, og þar að auki  gat hlaupið án hvíldar heilu sólarhringana og algjörlega hljóðlaust.  Það var ekki að sökum að spyrja að knötturinn small í kinn Trinidadsbúans og í mark Valsmanna.
 
Þeir grænklæddu komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleiks. Sóknarleikurinn var mun beittari og sköpuðu við okkur nokkur ágæt marktækifæri. Þar má helst nefna að Arnþór Ari skallaði framhjá í algjöru dauðafæri og ekki má gleyma þætti Kristins Jónssonar sem fékk dauðafæri á 69. mínútu.  Í stað þess að láta vaða með hinum eitraða vinstri fætin sínum ákvað bakvörðurinn snjalli að reyna sirkusvippu. Það endaði ekki vel og alveg eins gott að Kiddi heyrði ekki það sem Addi þjálfari tvinnaði saman af þessu tilefni. Þeir rauðklæddu hresstust undir lok leiksins en öflugir miðverðir okkar, Elfar Freyr og Damir, stóðu vaktina með sóma og héldu hreinu enn einn leikinn.
 
Blikaliðið hefur oft spilað betur en í þessum leik. Miðjumennirnir okkar, Oliver og Guðjón Pétur, voru ekki alveg að finna taktinn og sóknarmennirnir voru ekki að nýta þau færi sem þeir fengu. Gulli var hins vegar öryggið uppmálað í markinu og turnarnir tveir Damir og Elfar Freyr eru hiklaust besta miðvarðarparið í deildinni núna. Kiddi var mjög góður í leiknum en fær mínús í kladdann fyrir færið sem hann klúðraði. Glenn ógnaði vel með hraða sínum og krafti og gefur varnarmönnum og markmanni andstæðinganna aldrei frið. Aðalatriðiði er hins vegar að við unnum leikinn! Það gefur okkur sjálfstraust fyrir komandi leiki og einnig hristum við Valsmennina vel frá okkur í toppbaráttunni.
 
Sigurinn á Laugardalsvellinum í gær var sögulegur. Þeir grænklæddu sprengdu af sér álögin og unnu sinn fyrsta deildarleik á þjóðarleikvanginum frá því við lögðum Þrótt að velli árið 1980. Í millitíðinni höfðu unnist 3 leikir þar sem leikið var á hlutlausum velli; tveir í bikar árið 2009 og einn í evrópukeppni. Ágætis frammistaða í mörgum deildarleikjum á þessum 35 árum hefur ekki dugað til að landa þremur stigum.
 
Næsti leikur er gegn Skagamönnum á Kópavogsvelli á mánudaginn kl.18.00. Skagamenn hafa verið að hressast og voru hársbreidd frá því að ná í stig gegn sterku FH liði í gær.  
 
Við megum því alls ekki vanmeta þá gulklæddu.
 
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
 
-AP

Til baka