BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sjálfsmörkin felldu Blika

26.02.2015

Blikar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við KR í æfingaleik í Fífunni í kvöld. Lokatölur voru 0:3 Vesturbæjarliðinu í hag. Þessar tölur segja nú ekki allan sannleikann því öll mörk þeirra röndóttu voru sjálfsmörk Blika og þar að auki brenndum við af víti í síðari hálfleik. En sóknarleikur Blikaleiksins var reyndar ekki upp á marga fiska og því fór sem fór.

Blikaliðið var reyndar meira með boltann í leiknum, sérstaklega í síðari hálfleiknum. Boltinn gekk oft ágætlega manna á milli en þegar upp að vítaeig andstæðingana kom þá fjaraði leikurinn út. Sterkir varnarmenn KR-inga áttu í litlum erfiðleikum að stoppa sóknarmenn Blika og áttum við fá marktækifæri í leiknum. Það var helst Höskuldur sem ógnaði með hraða sínum og leikni og það var líka hann sem fiskaði vítaspyrnu eftir eldsnögga hreyfingu inn í teig andstæðinganna. En því miður mistókst Guðjóni Pétri að skora úr spyrnunni.

Við verðum að líta á þennan leik sem verðuga lexíu. Bosníumaðurinn Tandir komst lítið áleiðis í sókninni og spurning hvort hann sé nægjanlega sterkur fyrir Pepsideildina.  Elfar Freyr var rekinn af leikvelli í fyrri hálfleik fyrir glórulausa tæklingu á sóknarmanni KR og svoleiðis vitleysa má ekki sjást þegar út í alvöruna er komið. Gulli og Andri Rafn voru frískir á miðjunni og einnig Oliver og Guðjón Pétur þegar þeir komu inn á. En við verðum að ógna meira fram á við ætlum okkur einhverja stóra hluti í sumar. Það er verkefni sem þjálfararnir og leikmennirnir þurfa að takast á við á næstu vikum.

-AP

Til baka