BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sigur í fyrsta leik

29.04.2018

Pepsi deildin hófst af alvöru í dag þegar Blikar tóku á móti ÍBV.
Flestir sparkspekingar landsins sem telja sig ná máli hafa einhent sér í að spá fyrir um gengi liðanna að venju og það er skemmst frá að segja að Eyjamönnum er spáð frekar neðarlega og jafnvel falli en Blikum um og rétt ofan við miðja deild. Spá er spá.
Það var bjart yfir dalnum í dag og glaða sólskin í strekkings norðvestanátt en það vantaði alveg hitann. 5 gráður á celsíuskvarðanum er kalt. Völlurinn í fínu standi miðað við árstíma og mæting á völlinn alveg viðunandi, rétt um 1300 áhorfendur.

Fyrir leik var 2ja heiðursmanna minnst með einnar mínútu lófaklappi og bæði lið léku með sorgarbönd og minntust þannig Jóns Inga Ragnarssonar, fyrrum leikmanns og formanns knattspyrnudeildar Breiðabliks sem lést 9. apríl síðastliðinn og Sigurláss Þorleifssonar fyrrum leikmanns ÍBV sem bráðkvaddur var í vikunni.
Leikmenn og þjálfarar Breiðabliks vitjuðu leiðis Jóns Inga í hádeginu og vottuðu honum virðingu sína.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M/F)
Jonathan Hendrickx - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Oliver Sigurjónsson - Sveinn Aron Guðjohnsen - Aron Bjarnason
Varamenn:
Ólafur Íshólm Ólafsson(M) - Kolbeinn Þórðarson - Viktor Örn Margeirsson - Willum Þór Willumsson - Arnór Gauti Ragnarsson - Hrvoje Tokic - Alexander Helgi Sigurðarson

Sjúkralisti: Enginn. Leikbann: Enginn.

Nánar á urslit.net og ksi.is

Leikurinn fór rólega af stað, svo ekki sé fastar að orði kveðið og má segja að liðin hafi þreifað hvort á öðru langleiðina fram að hálfleik og greinilegt að hvorugt liðið ætlaði að gefa færi á sér. Blikar voru meira með boltann en náðu ekki að opna Eyjamenn og sama var hinumegin, lok lok og læs. Gísli og Sveinn Aron komust samt báðir í álitlega stöðu, hvor eftir sendingu hins,. Skot Gísla var alveg misheppnað en markvörðurinn kom stóru tá í boltann á undan Sveini og af honum hrökk boltinn aftur fyrir mark. En þegar áhorfendur voru svona um það bil að tygja sig í hálfleikskaffið steinlá tuðran í netinu í marki Eyjamanna. Markið skoraði Sveinn Aron með góðu skoti frá vítateig eftir góðan undirbúning Jonathans. Snaggaralega gert hjá okkar mönnum. Blikar fögnuðu ákaft utan sem innan vallar og minnstu munaði að leikmaður Blika yrði fyrir hnjaski í fagnaðarlátunum en það reyndist svo bara vera litli bróðir hans sem meiddi sig. En nógu vont samt. Staðan 1-0 fyrir Blika og menn fóru sáttir inn í leikhlé.

Kaffið var að venju snarpheitt og bakkelsið lungamjúkt. Blikar skælbrosandi og enn að fagna markinu en svo tóku menn upp léttara hjal og varð mönnum einkum tíðrætt um gerfigrasmálin og sýndist sitt hverjum eins og við er að búast. Eitt voru þó allir sammála um. Það er enginn alvöru fótboltavöllur með hlaupabraut.

Svo mörg voru þau orð en þeir sem dvöldu of lengi við kaffiþambið misstu af næstu stórtíðindum, en svo slysalega vildi til að seinni hálfleikur var vart hafinn þegar boltinn lá í netinu hjá okkar mönnum. Ekki þar fyrir, markið var af dýrara taginu, bylmingsskot af 30 metra færi í bláhornið niðri. En aðdragandinn, hvernig boltinn tapaðist, var agalegur. Augnabliks einbeitingarskortur í bland við ósléttan völl getur verið banvæn blanda. Staðan skyndilega orðin jöfn, og nú gat allt gerst. Blikar virtust slegnir út af laginu og Eyjamenn hertu róðurinn. Náðu þó ekki að skapa sér alvöru færi, en það var mikið bras á okkar mönnum fyrsta korterið. Blikar náðu loks að rétta úr kútnum og létta af sér pressunni og náðu smá dampi og pressu á gestina. Eftir tvær hornspyrnur sem ekkert varð úr náðu Blikar góðri sókn sem endaði með því að Aron komst einn á móti varnarmanni í vítateig gestanna, lék á hann og sendi svo fyrir markið. Sveinn Aron var réttur maður á réttum stað og skallaði þéttingsfast í netið. Laglegt mark há Blikum og Aron var samstundis tekinn útaf eftir þessi frábæru tilþrif og inná í hans stað kom Willum. Sveinn Aron fékk að halda áfram. Nú færðist fjör í leikinn. Blikar heimtuðu víti þegar Willium virtist vera felldur innan vítategs en Hjaltalín keypti það ekki. Hinumegin fengu gestirnir dauðafæri við markteig, en Gulli náði að lesa skotið og bjargaði vel. Þar sluppu Blikar með skrekkinn. Þetta var í raun í síðasta sinn sem gestirnir ógnuð marki Blika og það sem eftir lifði leiks voru okkar menn með góð tök á leiknum. Arnór Gauti kom inn fyrir Svein Aron þegar 10 mínútur lifðu af leiknum og skömmu síðar bættu Blikar 3ja markinu við eftir lagleg tilþrif Blika þar sem Willum kom með boltann inn á miðjuna og sendi á Arnþór. Hann hljóp yfir boltann en flikkaði um leið í hann með hælnum og á hæla honum kom Gísli og smurði í stöng og inn. Flott mark og þarna voru menn að lesa vel í hreyfingar hvers annars. Það er góðs viti. Gísli fékk skömmu síðar heiðursskiptingu og Viktor Örn kom inn í hans stað. Nú var þessu í raun lokið og gestirnir virtust satt að segja ekki líklegir til að  bæta sinn hlut. Það varð heldur ekki raunin og það voru Blikar sem áttu síðasta orðið þegar Willum hirti frákastið, eftir að markvörður gestanna varði skot frá Arnþóri, og skallaði í mark af stuttu færi. Hann var reyndar með nefbroddinn rangstæðan fyrir innan þegar skotið reið af en við fáumst ekki um slíkt smotterí.

Blikar hirtu þar með öll stigin í þessum leik og það verður að teljast sanngjarnt. Þeir voru betra liðið lengst af þessum leik og þó þetta hafi kannski ekki verið nein flugeldasýning var ágætur bragur á liðinu og það gaf ekki mörg færi á sér. Þetta eina mark gestanna var slysalegt, en sýnir enn og aftur að menn mega aldrei slaka á einbeitingunni. Aldrei. Það var hinsvegar ánægjulegt að okkar mörk komu öll frá fremstu mönnum og það ætti að auka sjálfstraustið í liðinu. Alltaf gott þegar sóknarmennirnir fara að raða inn mörkunum.

Það er orðið svolítið langt frá því Blikar unnu fyrsta leik í PEPSI deildinni en það var gegn Þór Akureyri 2013 og sá leikur endaði einnig 4-1. Það var því alveg kominn tími á þetta.

Næsti leikur Blika er í Mjólkurbikarnum á frídegi verkalýðsins, 1. maí.. Andstæðingar okkar eru Leiknismenn og fer leikurinn fram á Leiknisvellinum og hefst kl. 16:00.

Þetta er ekki flókið. Skella sér í kröfugöngu og svo beint á völlinn.


Áfram Breiðablik !

OWK

Myndavesla í boði BlikarTV

BlikarTV: Viðtöl við leikmenn fyrir og eftir leiki

Umfjallanir netmiðla

Sjá mörkin

Til baka