BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggt í Kórnum!

11.01.2020

Breiðablik vann stórsigur 1:6 á grönnum sínum HK í fyrsta leik liðanna fotbolta.net mótinu 2020. Yfirburðir Blika voru miklir og sáu vinir okkar í efri byggðum í raun aldrei til sólar í leiknum. Eins og oft áður í viðureignum þessara liða þá sveif ekki beint vináttuandinn yfir vötnunum og fengu þrír að líta rautt spjald í leiknum, einn leikmaður úr hvoru liði og svo þjálfari heimamanna. Þetta var fyrsti sigur Blika undir stjórn Óskars Hrafns þjálfara og lofar þetta góðu varðandi framhaldið.

Leikurinn var ekki nema nokkurra mínútna gamall þegar varnarmaðurinn efnilegi, Ólafur Guðmundsson, þrumaði knettinum í mark þeirra rauðklæddu með stórglæsilegu skoti utan af kanti. Sumir vildu halda því að fram að Ólafur hefði verið að gefa fyrir en það mun þessi flotti leikmaður aldrei viðurkenna. ,,Ég var að reyna að skora allan tímann," sagði hann ákveðinn við félaga sína eftir leikinn. Þetta er fyrsta mark Ólafs í meistaraflokki og það er ekki amalegt að byrja svona!

Næsta mark var ekki síður snyrtilegt. Glæsileg hröð sókn Blika endaði með því að Gísli Eyjólfsson setti knöttinn í markið með góðu skoti. Þar með endaði Gísli langa markaþurrð og lofar þetta góðu varðandi framhaldið hjá þessum snjalla leikmanni.

Yfirburðir Blika í hálfleiknum voru gríðarlegir. HK menn voru eins og statistar þannig að það kom ekki óvart þegar Brynjólfur Darri setti þriðja markið skömmu fyrir leikhlé.  Mörkin hefðu hæglega orðið fleiri en HK átti bara eitt skot á Blikamarkið í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur hófst með látum. Börkurinn í liði HK steig fruntalega á Brynjólf Darra og fékk réttilega að sjá rautt spjald. Blikaliðið virtist eitthvað sofna á verðinum og fékk á sig mark úr næstu sókn. Algjör klaufaskapur þótt að markið hjá HK stráknum hefði verið mjög gott. En smám saman tókum við aftur völdin á vellinum og áður en  yfir lauk vorum ungu strákarnir í liðinu, Stefán Ingi Sigurðsson, Brynjólfur Darri Willumsson og Þorleifur Úlfarsson búnir að bæta við einu marki hver. Þess má geta að þetta voru fyrstu mörk Stefáns og Þorleifs fyrir meistaraflokk. Vel gert strákar! Það var töluverður hiti í leikmönnum í síðari hálfleik. Viktor Örn fékk rautt spjald fyrir að stöðva sókn þeirra rauðklæddu og Brynjar Björn þjálfari HK fékk einnig sama lit fyrir að ræða við dómara leiksins nokkuð umbúðalaust!

Mörk og atvik úr leiknum:

Þrátt fyrir nokkuð marga lykilmenn vantaði í Blikaliðið þá var unun að sjá til spilamennsku liðsins í dag. Hraði, kraftur, ákveðni og snerpa einkenndi leik okkar pilta og voru heimapilar algjörlega slegnir út af laginu. Davíð Ingvars, Elfar Freyr og Alexander Helgi voru fjarverandi vegna smávægilegra meiðsla, Höskuldur var á leið til Ameríku með íslenska landsliðinu og Thomas ekki mættur frá Danaveldi. Það munar um minna en hinir strákarnir í liðinu stigu svo sannarlega upp.

Leikurinn var sýndur á YouTube rás BlikarTV. Framlög renna til Ljónshjarta-samtök til stuðnings yngra fólki (20-50 ára) sem misst hefur maka og börnum þeirra. 

Næsti leikur liðsins er gegn ÍBV á Kópavogsvelli n.k. laugardag kl.12.00 einnig í fotbolti.net mótinu. Ef leikurinn í dag er ekki hvatning til stuðninsmanna að mæta á völlinn þá skal ég hundur heita!

-AP

Umfjallnair netmiðla.

Til baka