BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ólafur Guðmundsson fallinn frá

20.02.2014

Ólafur Guðmundsson félagi okkar Blika er fallinn frá langt fyrir aldur fram, einungis 53 ára að aldri. Ólafur var virkur í starfi knattspyrnudeildar í hátt á annan áratug bæði  sem umsjónarmaður yngri flokka og einnig sem virkur félagsmaður á fundum og í nefndum deildarinnar. Einnig var hann ætíð reiðubúinn að leggja okkur lið í fjáröflunum eða í skipulagningu á uppskeruhátíðum, skemmtikvöldum eða öðrum uppákomum á vegum knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Ólafur hafði mjög  góða nærveru, var skapgóður og jákvæðni einkenndi allt hans lundarfar. Samt var hann skapmaður og hafði sterka skoðun á því hvernig ætti að reka deildina. Þrátt fyrir að hann hefði dregið sig úr daglegu starfi knattspyrnudeildarinnar fyrir nokkrum árum var hugur hans oft hjá okkur enda bjó hann örstutt frá Kópavogsvellinum.

Þrátt fyrir að KR-ræturnar væru sterkar í Ólafi þá viðurkenndi hann að hin síðari ár væri Blikataugin orðin ansi öflug í honum. Það var alltaf gaman að hitta Ólaf og ræða við hann um knattspyrnu. Hann fylgdist alltaf vel með leikmannamálum í meistaraflokki karla og kom oft með hnyttnar athugasemdir um menn og málefni.

Árið 2007 heiðraði knattspyrnudeildin Ólaf fyrir hans framlag til félagsstarfsins með nafnbótinni ,,Silfur-Bliki“ en þann titil fá einungis þeir sem hafa unnið langt og farsælt starf í þágu félagsins. Blikar senda Guðnýju konu hans og börnum samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Minning um góðan dreng mun lifa í hjörtum okkar Breiðabliksmanna um ókomna tíð.

Ólafur verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju föstudaginn 21. febrúar og hefst athöfnin klukkan 13:00.

Til baka