BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggur sigur Breiðabliks á Selfossi

29.05.2012

Blikastúlkur héldu áfram sigurgöngu sinni í Pepsi-deildinni í kvöld. Þær unnu öruggan 7-1 sigur á baráttuglöðu liði Selfoss. Byrjunin var þó ekki góð því að Selfoss komst yfir eftir 5 mínútna leik með góðu langskoti Valerie O´Brien af vinstri kanti, sem endaði í hliðarnetinu eftir að hafa farið yfir Birnu í markinu.
En Blikastelpur hengdu ekki haus heldur sneru vörn í sókn. Mínútu síðar átti Fanndís Friðriksdóttir skot sem var varið í slána. Á 12. mínútu jafnaði Fanndís leikinn eftir sendingu frá Þórdísi Sigfúsdóttur.

Og fimm mínútum síðar voru þær komnar yfir með marki frá Björk Gunnarsdóttur. Fanndís hafði komist í gegnum vörn Selfyssinga en Nicole McClure varði skot hennar. Boltinn barst síðan út að vítateigslínu þaðan sem Björk skoraði með góðu skoti.
Á 28. mínútu var brotið á Þórdísi rétt utan vítateigs. Fanndís skaut í varnarvegginn, en náði frákastinu og þrumaði boltanum í netið og staðan orðin 3-1. Á 38. mínútu óðu þær grænklæddu í færum, en þá skaut Fanndís í slána, Andrea fékk boltann við endalínu og skaut á markið. Boltinn fór eftir marklínunni, en Blikar héldu samt boltanum, og að lokum átti Rakel Hönnudóttir hörkuskalla yfir markið.
Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks skoraði Fanndís þriðja markið sitt eftir að hafa leikið vörn Selfyssinga grátt og var staðan þá orðin 4-1. Í uppbótartíma skoraði síðan Rakel Hönnudóttir eftir góðan undirbúning Fanndísar. Hún hafði þá splundrað vörn Selfoss og var sjálf komin í gott færi, en var óeigingjörn og gaf á Rakel sem stóð fyrir opnu marki og skoraði. Staðan í hálfleik var því 5-1 fyrir Breiðablik.
Á 52. mínútu fékk Þórdís sendingu inn í teig og skoraði fallega framhjá markmanni Selfoss og staðan orðin 6-1.
Á 61. mínútu átti Melanie Adelman skot að marki Breiðabliks, en Birna lét ekki plata sig aftur eins og í upphafi leiksins og sló boltann frá.
Þórdís fékk áminningu í seinni hálfleik og stuttu síðar átti hún gott skot að marki, sem sleikti þverslána að ofan.
Á 86. mínútu skoraði síðan Rakel Hönnudóttir síðasta markið eftir sendingu frá Fanndísi, 7-1.
Ragna Björg Einarsdóttir átti mjög góðan leik í vörninni og stöðvaði hún margar sóknir Selfyssinga. Annars átti liðið í heild góðan leik og sýndi skemmtilega takta.
Þetta var stórskemmtilegur leikur á að horfa og gaman að horfa á sóknarleik þeirra grænklæddu.

Áhorfendur voru ekki margir, en fyllsta ástæða er að mæla með því að fólk komi og horfi á Blikastelpurnar, ef þær halda áfram að spila jafnskemmtilegan fótbolta og þær gerðu á móti Selfossi.

Blikastelpur náði því aftur efsta sætinu í deildinni en úrslit annarra leikja og stöðu í deildinni má sjá hér.

Til baka