BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ó, hvað það er auðvelt að vera Bliki…..

17.06.2014

...þegar vel gengur. Þá eru allir brosandi og vilja ferðast á 1. farrými með liðinu og segjast vera alveg ógurlega stoltir af liðinu ,,sínu“. Það er örtröð í miðasölunni og troðið í stúkunni. Sjoppan græðir á tá og fingri. Fólk mætir snemma á völlinn. Allir eru Blikar #1.

En þetta er ekki alveg staðan eins og hún er núna. Nú er brekka, og búin að vera í allt vor. Og það er eins og við manninn mælt. Allt sem hér er ritað að framan hljómar eins og argasta öfugmæli. Strákarnir í liðinu virðast sitja einir í súpunni ásamt þjálfurum. Við hin, sem enn nennum að mæta á völlinn, bíðum eftir að þeir hysji upp um sig.  Steinþegjandi og fúl. Enn fleiri sitja bara heima og hafa ekki lengur áhuga. Það er bara gaman þegar það er veisla.
Þetta gengur náttúrulega ekki og þessu þarf að snúa til betri vegar. Því við, og þá meina ég stuðningsmenn, sitjum líka í þessari sömu súpu.  Og það er hvorki gaman né auðvelt. Þess vegna verðum við að gera allt sem við getum til að snúa þessu við. Það eru eflaust margar aðferðir til þess og menn geta karpað um ,,réttu“ leiðina. Leikmenn eru alveg örugglega ásamt þjálfurum að vinna í því að snúa þessu við. En hvað með okkur? Stuðningmennina.  Á hvaða leið erum við? Veit ekki alveg, en örugglega ekki þeirri réttu. Við erum þarna á einhverri leið, en án stefnu og án fyrirheits. Stemmingslaust og andlaust. Við mætum seint og illa. Grjóthöldum svo kjafti nánast allan leikinn. Kannski smá tuð.Muldrum eitthvað út undan okkur uns við hunskust svo heim, með hausinn oní bringu, eftir enn eitt jafnteflið og enn eitt skítamarkið sem við fáum á okkur.
Þetta er svo ,,upplífgandi og gott fyrir sálina“. Næstum öruggt að ef við bara höldum áfram svona þá mun þetta örugglega alveg stórbatna, nánsat af sjálfu sér. Einhverntíma. Er það ekki?
Svarið er auðvitað: Nei takk !
Eigum við þá ekki að snúa þessu við og hjálpa liðinu að gera slíkt hið sama? Það munu engir aðrir en við gera það.

 Næsti leikur er strax núna á fimmtudaginn í Borgunarbikarnum gegn Þór og þar getum við snúið dæminu við á okkar heimavelli. Ef við þorum og viljum. Leikurinn hefst kl.20:00. Það þýðir að við erum mætt fyrir kl.20:00,  og hvetjum og hvetjum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þá verður aftur gaman að vera Bliki. Ekki fyrr.

Áfram Breiðablik !
OWK.

Til baka