Það var sólskin í Eyjafirðinum sunnudaginn 23. júlí þegar Breiðablik mætti KA í fyrsta leik seinni umferðar Pepsi deildarinnar. Ljúfur síðdegisandbælar að norðan (sem…" /> Það var sólskin í Eyjafirðinum sunnudaginn 23. júlí þegar Breiðablik mætti KA í fyrsta leik seinni umferðar Pepsi deildarinnar. Ljúfur síðdegisandbælar að norðan (sem…">

BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ó, Akureyri

25.07.2017
Það var sólskin í Eyjafirðinum sunnudaginn 23. júlí þegar Breiðablik mætti KA í fyrsta leik seinni umferðar Pepsi deildarinnar. Ljúfur síðdegisandbælar að norðan (sem heimamenn kalla innlögn) og aðstæður til knattspyrnu ákjósanlegar á Akureyri.  Hljómsveit Ingimars Eydal hljómaði í hátalarakerfinu fyrir leik og söng um Amaró og KEA - afar ljóðrænt, framsóknarflokksskotið og heimilislegt. 
 
Yfir 1.000 áhorfendur voru í stúkunni og grasbrekkunni – langflestir í gulu og bláu en þar var líka sértrúarsöfnuður Blikaáhangenda sem safnaðist saman kringum Breiðabliksfána Andrésar Péturssonar æðstaprests og hélt uppi öflugu minnihlutastarfi í stuðningshrópum og hvatningu. Vignir Baldursson hafði tekið sér frí frá þakuppsetningu á húsi fjölskyldunnar á þeim fallega stað Hjalteyri og sagðist hafa góða tilfinningu fyrir leiknum. Hann reyndist sannspár enda djúpvitur maður. 
 
Staða Blikanna var ekki sérlega vænleg fyrir leikinn - bæði stigasöfnun og markaskorun talsvert undir væntingavísitölu stuðningsmanna og góð úrslit gegn sterku KA liði lífsnauðsynleg fyrir seinni umferðina.    Blikar mættu með Elfar Frey í hjarta varnarinnar ásamt Damir en þetta er sennilega sterkasta miðvarðarpar á Íslandi undanfarin ár. Gott að fá Elfar Frey aftur af Jótlandsheiðum og hann átti skínandi leik.  Þá var hinn serbneski Dino Dolmagic í hægri bakverðinum og lofar góðu - en hann þarf að slípast til í framhaldinu.  Aron Bjarnason var í framherjastöðunni en Tokic var meiddur. Annað í uppstillingunni var kunnuglegt.     
 
Við hófum leikinn með miklum látum og á fyrstu 2 mínútunum átti Martin Lund 2 færi á að skora. Blikarnir tættu í sig vörn KA með stuttu spili og Höskuldur lagði boltann fyrir Gísla sem setti hann laglega í vinstra hornið. Sérlagað að hætti hússins og staðan 1-0 eftir 3 mínútur.   
 
Í kjölfarið var Breiðablik ráðandi á miðjunni en smám saman komu norðanmenn inn í leikinn – og við féllum til baka.  Slíkt er ekki ráðlegt þegar jafn öflugt lið og KA á í hlut. Á 6 mínútna kafla var hinn danski Emil Lyng tvisvar búinn að skora hjá Gulla.  Fyrra markið eftir aukaspyrnu þar sem menn hefðu átt að gera betur í dekkuninni en síðara eftir ráðleysi í vörninni.  Það flaug sú hugsun um söfnuðinn í hálfleik að nú væri verið að skrifa nýjasta kaflann um lánleysi þessa Blikasumars.   
 
Ég veit ekki hvaða ræðu hinn hvatvísi en eldklári Milos hefur haldið yfir okkar mönnum - en það var óþekkjanlegt lið sem kom inn á Akureyrarvöllinn eftir hlé. Við erum líka innanborðs með leikmann sem heitir Höskuldur Gunnlaugsson en hann hefur hæfileika til að gera út um knattspyrnuleiki einn og sér.  Hann var langbesti maður leiksins og sending hans á Martin Lund Pedersen var snilldin ein þegar 3 mínútur voru liðnar af hálfleiknum.  Martin lagði boltann mjög yfirvegað framhjá Rajko í marki KA.  Gríðarlega gott að markaþurrð hans var vökvuð þetta árið.  Eftir markið var sjálfstraustið komið og sókn okkar þyngdist.  Höskuldur tók aukaspyrnu við vinstra vítateigshorn sem sveif yfir alla vörnina – og þar var mættur Damir Muminovic sem afgreiddi boltann viðstöðulaust á stönginni fjær eins og besti senter væri að verki. Það var hjartnæmt að sjá Damir fagna sigurmarkinu þar sem hann hleypur til baka og horfir til himins og beinir fingri sínum í átt að almættinu og brosir - eins og myndin sýnir hér á síðunni. Hann tileinkaði greinilega markið móður sinni sem lést um aldur fram daginn áður en Blikarnir léku þennan leik með sorgarborða í minningu hennar.  Knattspyrnan er ekki eingöngu leikur gleðinnar - hún sameinar líka hjörtun þegar sorgin knýr dyra. 
 
KA reyndi að koma sér aftur inn í leikinn - en voru aldrei líklegir.  Það var líka sérlega viðeigandi að það var Höskuldur sem á 87. mínútu prjónaði sig í gegnum fremur laskaða vörn KA og lagði fyrir fætur Arons Bjarnasonar sem afgreiddi boltann yfirvegað í hægra hornið og úrslitin ráðin. Höskuldur lagði hér með upp sína fjórðu stoðsendingu í einum og sama leiknum átti hér einhverja mögnuðustu frammistöðu sumarsins í Pepsi deildinni.  Með því að Martin og Damir komust á blaði hafa 10 leikmenn skorað fyrir okkur í sumar.  Ekkert annað lið getur státað sig af þeirri tölfræði.
 
Fögnuður Blika eftir leikinn var fölskvalaus.  Gunnleifur fyrirliði fylkti liði sínu eftir leikinn í átt að Blikahópnum í brekkunni sem fagnaði þeim vel og innilega undir Andrésarfánanum góða og þakkaði fyrir frábæran stuðning. Hann vildi líka þakka Oliver Sigurjónssyni samveruna og einstaka þjónustu við Breiðablik.  Þessi magnaði leikmaður er á förum frá okkur í atvinnumannsvíking til Bodo Glimt í Noregi eftir að hafa glatt okkur svo mikið undanfarin þar þrátt fyrir ungan aldur.  Oliver hélt þakkarræðu og gerði það listavel.  Gangi þér vel Oliver!  
 
Ljóst er að ef Breiðabliksliðið nær vopnum sínum líkt og í síðari hálfleik fyrir norðan eru þessu liði allir vegir færir.  
 
Næsti leikur er mánudaginn 31. júlí gegn Fjölni sem er á miklu skriði um þessar mundir. Leikurinn er á Kópavogsvelli og ljóst að sá leikur þarf nauðsynlega að vinnast ef þetta leiktímabil á að skila áþreifanlegum árangri.  
 
Mætum öll og fylgjum eftir sigrinum að norðan eftir með öflugum stuðningi undir öflugri leiðsögn Andrésar með fánann góða.   
 
Hákon Gunnarsson 

Til baka