BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

,Nýja“ Fífan opnar bráðlega!

10.09.2013

Iðnaðarmenn hafa undanfarnar vikur unnnið hörðum höndum að setja nýtt gervigras á knattspyrnuvöllinn í Fífunni. Stefnt er að því að opna höllina fyrir æfingum í kringum 20. September. Ungir Blikar taka fyrstu æfinguna á nýja grasinu.

Helgi Viðar Hilmarsson, hirðljósmyndari Blika, mætti í í Fífuna í ágústmánuði til að festa framkvæmdirnar á filmu. Grasið er af nýjustu kynslóð og segja fróðir menn að mun betra sé að keppa á þessu grasi en því gamla.

Þar að auki er búið að færa hlaupabrautina yfir í vesturhluta Fífunnar þannig að hlauparar geta betur athafnað sig. Áhorfendastæðin verða því austanmegin og það ætti að skapa meiri stemmningu á leikjum.

Margir iðkendur eru nú farnir að telja dagana þar til þeir komast til að prófa grasið. En það er dálítið kátbroslegt að fyrsti atburðurinn sem fer fram á nýja grasinu er bílasýning! Hin árlega bílasýning Bílgreinasambandsins fer nefnilega fram í Fífunni um næstu helgi.

Það er hins vegar ljóst að það kostar mjög mikið að setja svona nýtt gras á Fífuna og bæjarfélagið nær inn tekjum á höllina með sýningum eins og þessari Bílasýningu og síðan Sjávarútvegssýningunni sem verður haldin á næsta ári.

Við knattspyrnuáhugamenn bíðum því bara rólegir en það er gaman að skoða hinar frábæru myndir Helga Viðars enda sýna þær hve mikið verk það er að skipta um svona gras.

Til baka