BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Nú skal segja, nú skal segja…..

09.12.2018

Hvernig Blikum reiddi af gegn KR í úrslitaleik BOSE mótsins 2018.

Mótið er hvorttveggja, ágætur upptaktur að komandi undirbúningstímabili og tilbreyting nú í svartasta skammdeginu. Styttir sannarlega biðina eftir jólum og komandi keppnistímabili. Eins og jafnan að vetrarlagi var veður með allrabesta móti í Fífunni, miðað við árstíma, og fjölmargir áhorfendur. Það var splæst í sprotadómara að þessu sinni og kvintettinn var í sínu fínasta pússi og stóð sig með sóma. Marklínutækni bíður enn um sinn en það kom ekki að sök.

Blikar stilltu að mestu leyti upp svipuðu liði og spilaði megnið af síðasta tímabili, en þó ekki alveg. Thomas Mikkelsen var fjarri góðu gamni og sömuleiðis Gísli Eyjólfsson sem nú hefur gengið til liðs við Mjallby AIF í Svíþjóð á lánssamningi út næsta ár. Við óskum honum alls velfarnaðar og munum fylgjast grannt með framgangi hans hjá sænskinum. Andri Rafn Yeoman hefur ekki leikið síðan í bikarúrslitunum og er enn ekki leikfær. Hann kemur vonandi ferskur inn með hækkandi sól. Alexander Helgi mun hafa átt að byrja leikinn en eitthvað kennt sér meins í upphituninni. Vonandi eru meiðsl hans ekki alvarleg. Hann er afar spennandi kostur á miðjunni. Guðmundur Böðvar kom inn í hans stað í dag og stóð sig vel.

Byrjunarlið Blika.

Gestirnir voru heldur ákveðnari á upphafsmínútum leiksins og komust a.m.k. 2svar í álitlega stöðu til að valda tjóni en hvorutveggja var að lukkan var ekki með þeim og svo hitt að Gunnleifur var í „stöði“, einsog sagt var í sálminum hans Sobbeggi afa og Lillu Heggu í annarri bók. Davíð Kristján komst svo í gott færi en ekkert varð úr. Blikar sluppu semsagt með skrekkinn og komu sér svo inn í leikinn smátt og smátt. Það var barist um a allan völl en Blikar voru komnir með fín tök á leiknum um miðjan hálfleikinn og fóru að ógna KR ingunum sífellt meir. Færin létu þó á sér standa en stundum var það bara hársbreidd sem skildi á milli að við settum mark. Markið kom svo fyrir rest og það var af dýrari gerðinni. KR ingar voru með boltann svona miðja vegu á milli miðlínu og vítateigs okkar megin en misstu boltann þegar þeir voru á fleygiferð fram völlinn. Þetta færðu okkar menn sér í nyt, sneru vörn í sókn og geystust fram. Og eins og hendi væri veifað var boltinn kominn langleiðina að vítateig KR vinsta megin, og þar kom Aron Bjarnason á ferðinni með boltann og plataði varnarmenn KR áður en hann lét vaða frá vítateig og boltinn steinlá í netinu. 1-0 fyrir Blika. Þarna var skammt til leikhlés en rétt áður en það brast á náðu gestirnir að koma sér í sannkallað dauðafæri sem Gunnleifur varði frábærlega. Betri markvarsla sást ekki í þessum leik.

Staðan í hálfleik því 1-0 Blikum í vil. Leikurinn bráðskemmtilegur af beggja hálfu og leikgleðin í fyrirúmi hjá báðum liðum.

Blikar gerðu 2 breytingar í hálfleik. Hlynur Örn kom markið í stað Gunnleifs og Brynjólfur Darri kom inn fyrr Arnór Gauta.

Síðari hálfleikur hófst með látum og áður en menn vissu af lá boltinn í netinu hjá gestunum. Aftur. Markið var sérlega fallegt. Blikar léku vel saman upp vinstri kantinn og þaðan kom svo flott sending fyrir markið frá Davíð. Þar mætti Willum, sem byrjaði eiginlega sóknina, og hann hóf sig til flugs og þrumaði boltanum í netið með kollinum. Algerlega óverjandi fyrir markvörð gestanna. Staðan orðin 2-0. Gestirnir voru aðeins lemstraðir eftir þetta á meðan Blikar settu í gírinn og freistuðu þess að bæta við marki. Sú orrahríð stóð í dágóða stund og lauk eiginlega þegar Brynjólfur Darri og Viktor Örn settu báðir boltann í tréverkið hjá KR, annar í stöngina og hinn í slá, í sama áhlaupinu. En KR ingar stóðu þennan storm af sér og fóru nú að ógna á ný og náðu að vinna sig inn í leikinn á ný. Takturinn í leik Blika riðlaðist örlítið þegar á leið og kannski ekki óeðlilegt þegar liðið breytist jafn ört og þarna var þegar ungir og ferskir menn voru settir inná að spreyta sig. Þetta nýttu gestirnir sér og settu nú meiri þunga í sóknina uns markið lá í loftinu. Og það kom beint úr aukaspyrnu sem dæmd var á Blika, rétt utan vítateigs. Staðan orðin 2-1 þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Lítt hresstist Eyjólfur og næstu mínútur var tómt basl og bras á okkar mönnum og gestirnir jöfnuðu svo fimm mínútum síðar. Það kom fáum á óvart enda stjórnuðu þeir alfarið umferðinni á þessum kafla. En nú vöknuðu Blikar og fóru að láta að sér kveða á ný. Aukin harka færðist í leikinn og hann jafnaðist en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki áður en leiktíminn rann. Því var gripið til vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit og til að gera langa sögu stutta þá voru það gestirnir sem fögnuðu sigri í bráðabana og hrepptu þar með sigurlaunin í þessu skemmtilega móti.

Blikar urðu að sætta sig við enn ein silfurverðlaun þegar upp var staðaið en það er engin ástæða til að dvelja lengi við það. Liðið lék vel á löngum köflum í þessum leik og bæði mörkin voru augnayndi og vel að þeim staðið. Leikurinn riðlaðist eins og fyrr segir um tíma í seinni hálfleik en það er gaman að sjá alla þessa gutta koma inn á og spreyta sig. Aron Kári, Benedikt, Andri Fannar, Brynjólfur, Davíð Ingvars komu allir við sögu í dag ásamt Þóri og fleiri bráðungir leikmenn, sem spennandi verður að fylgjast með, eru á leiðinni. Þeir fá sínar mínútur og þurfa að nýta þær vel.

Það er góður efniviður í liðinu og breiddin er alveg þokkaleg. En það þarf að að bæta í ef menn ætla að gera betur á næsta ári en því sem nú er að líða. Það hefur kvarnast úr liðinu og lærdómur síðasta árs var m.a. sá að gegn sterkustu liðum deildarinnar vorum við ekki nógu öflugir.

Næsti leikur Blika er 12. janúar, gegn ÍBV í Fótbolta.Net mótinu. Hann verður líka í Fífunni.

Áfram Breiðablik !
OWK

Myndir: HVH

Til baka