BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Markaþurrð

11.09.2017
Leikmenn og stuðningsmenn Blika fóru fúlir af Valsvellinum í gær því okkur mistókst að taka stig með í Kópavoginn þrátt fyrir nokkur góð færi. Dagskipun Milosar þjálfara var greinilega að liggja aftur og þannig að loka á hraða sóknarmenn Hlíðarendaliðsins. Það tókst nokkuð vel og áttu báðir bakverðir Blikaliðsins, þeir Davíð Kristján og Gummi Friðriks, fínan leik eftir smá byrjunarörðugleika.  En eins og í mörgum leikjum í sumar þá voru okkur því miður mjög mislagðar hendur í sóknarleiknum. Við spiluðum okkur nokkrum sinnum í vænlegar stöður en lokahnykkinn vantaði. Þrátt fyrir að Valsmenn hafi skorað eitt mark þá á það ekki að koma í veg fyrir að við getum landað þremur stigum!
 
Ágæt mæting var á Hlíðarenda í gær og gerðu töluvert margir Kópavogsbúar sér ferð yfir lækinn til að berja leikinn augum. Valsmenn vökvuðu völlinn hressilega fyrir leik og nú átti greinilega að auka hraðan á knettinum fyrir eldfljóta framherja rauða liðsins. Blikaliðið lá aftarlega í byrjun leiksins og var mikill kraftur í framlínumönnum heimapilta á fyrstu mínútum. Okkar varnarmenn voru í smá vandræðum til að byrja með en smám saman náðum við takti og lokuðum vel á sóknarlínu Hlíðarendahraðlestarinnar. Einkum var gaman að sjá hve Guðmundur Friðriksson náði góðum árangri í bakverðinum en eins og flestir vita hefur hann ekki leikið mikið í sumar. Greinilegt að hugarfarið er rétt hjá Gumma og greip hann tækifærið vel að sýna knattspyrnugetu sína. Einnig áttu Damir, Elfar Freyr og Davíð góðan leik svo ekki sé minnst á frábæra frammistöðu Gunnleifs fyrirliða í markinu  sem varði 2-3 sinnum í leiknum frábærlega. Að vísu sofnaði varnarlínan á verðinum þegar Valsmenn skoruðu sigurmarkið. En við eigum auðvitað að skora fleiri mörk en andstæðingarnir þannig að ekki er hægt að skrifa tapið á þetta eina mark sem við fengum á okkur. Við fengum færi til að ná að minnst kosti einu stigi! Svo er vert að minnast á dómari leiksins leyfði Valsmönnum að komast upp með ruddabrot á okkar mönnum. Það var ótrúlegt að sjá dómara leiksins sleppa fyrirliða Valsmanna með hroðalega tæklingu á Sveini Aroni. Nokkru síðar fékk sá maður gult spjald þannig að það gult spjald á fyrra brotið hefði getað breytt miklu um gang mála í leiknum.
 
Í síðari hálfleik dró aðeins úr kraftinum í Blikaliðinu. Við fengum færri færi en varnarleikur og miðjuspil okkar, með Gísla og Andra Rafn í aðalhlutverki,  var að mestu leyti í lagi fyrir utan þetta eina andartak sem gaf sigurmarkið. Það er hins vegar áhyggjuefni hve lítið kemur út úr sóknarleiknum hjá okkur. Við erum með góða leikmann sem hafa sýnt það og sannað áður að þeir geta skorað mörk. En af einhverjum ástæðum virðast markatöfrarnir vera víðs fjarri þegar komið er í Blikabúninginn. Við höfum hins vegar enn nokkra leiki til að girða okkur í brók. Næsti leikur er gegn vængbrotnum KR-ingum á Kópavogsvelli á fimmtudaginn kl.17.00. Þeir fengu skell í síðasta leik þannig að búast má við þeim alveg bandbrjáluðum á fimmtudaginn. Það er vert að taka fram að Íslenska sjávarútvegssýningin verður byrjuð á fimmtudaginn þannig að búast má við miklum erfiðleikum varðandi bílastæði við Kópavogsvöll. Við hvetjum því alla Blika til að koma gangandi, hjólandi eða með almenningsfarartækjum á leikinn því bílastæði verða af mjög skornum skammti!
 
Búningaval Blikaliðsins á útileikjum vekur enn og aftur spurningar. Að þessu sinni lékum við í hvítum treyjum, hvítum buxum og svörtum sokkum. En á heimasíðu KSÍ kemur skýrt fram að varabúningur Blika sé hvít treyja, grænar buxur og grænir eða hvítir sokkar. Það eru þeir litir sem við höfum sjálf sent inn sem formlega varaliti okkar félags. Ímynd félagsins er hins vegar miklu mikilvægara en einstaka litir. Við eigum að vera samkvæm okkur sjálf í útliti félagsins því það er hluti af því að vera orðið alvöru félag sem á að berjast i toppbaráttu ár eftir ár!
 
Sunnudagurinn 10.september var hins vegar mjög ánægjulegur fyrir yngri flokka Breiðabliks. Bæði 4. og 5. flokkur karla  tryggðu sér Íslandsmeistaratitil í gær og fyrr í vikunni höfðum stúlkurnar í 5. Flokki gert slíkt hið saman.
 
Blikar.is sendir þessum öflugu Blikakrökkum, þjálfurum þeirra og forráðamönnum hamingjuóskir með þennan frábæra árangur! 4. flokkur kvenna og 3. flokkur karla eru síðan í undanúrslitum og 2. flokkur karla á enn möguleika á titli. Framtíðin er því græn.
 
Einnig óskum við Arnþóri Ara Atlasyni til hamingju með 100. opinbera mótsleikinn með Breiðabliki. 
 
Umfjallanir netmiðla og myndaveisla í boði Fótbolta.net
 
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
 
-AP

Til baka