BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

,,Líður vel í Hönefoss“ segir bakvörðurinn snjalli Arnór Sveinn Aðalsteinsson

23.03.2012

Arnór Sveinn Aðalsteinsson er einn margra íslenskra landsliðsmanna sem spila í efstu deildinni í Noregi. Hann hélt í víking síðastliðið sumar þegar Blikaliðið samþykkti að lána hann til 1. deildarliðsins Hönefoss. Arnór vann sér strax sæti í liðinu og þegar upp var staðið í haust hafði liðið unnið sér sæti í efstu deildinni að nýju. Norðmennirnir voru það ánægðir með Kópavogsbúann snjalla að þeir keyptu hann af Blikaliðinu og gerði Arnór tveggja ára samning við Hönefoss.

Bærinn Hönefoss er  í um 50 km fjarlægð frá höfuðborginni Osló. Í bænum og nágrenni búa um 40 þúsund manns. Knattspyrnuliðið var stofnað árið 1895 en tókst ekki að tryggja sér sæti í efstu deild fyrr en árið 2009. Ekki tókst þeim að halda sæti sínu i það skiptið og fóru þeir beint niður í 1. deild. En að liðinu standa ágætlega fjársterkir aðilar og keyptu þeir að sterka menn meðal annars Íslendinginn Kristján Örn Sigurðsson frá Brann. Þegar Arnór bættist við þá var ekki að sökum að spyrja og sætið á meðal hinna bestu var gulltryggt síðasta haust.

Heimavöllur liðsins, AKA Arena, tekur um fimm þúsund manns í sæti. Þegar liðið var síðast í efstu deild komu að meðaltali um 2.500 manns á hvern heimaleik. Þegar stóru liðin, Rosenborg, Brann, Lilleström og nágrannarnir frá Stabæk, komu var hins vegar yfirleitt uppselt á leikina.

Arnór segist mjög ánægður hjá liðinu; ,,Þjálfararnir tveir, .Leif Gunnar Smerud og Pal Arne Johansen, eru ungir og metnaðargjarnir. Þeir þjálfuðu áður kvennalandslið Noregs en þetta er frumraun þeirra með karlalið í efstu deild,“ segir Blikinn.,,Ég er mjög ánægður hvernig þeir  leggja upp æfingarnar. Það er góð keyrsla en samt er passað að hvíla vel á milli.“


Kláraði viðskiptafræðina í febrúar

Eins og hjá flestum liðunum í efstu deildinni er fríður hópur erlendra leikmanna í hópnum hjá Hönefoss. Markvörðurinn er bandarískur og svo eru leikmenn frá Fílabeinsströndinni, Senegal, Costa Rica, Finnlandi og svo auðvitað Íslendingarnir tveir. En Arnór segir að erlendu leikmennirnir séu ekki endilega lykilmenn. ,,Við erum með 22 leikmenn í hópnum og samkeppnin um stöðurnar ellefu er mjög mikil. Þó má segja að Kristján Örn og hinn hafsentinn Norðmaðurinn sé einna mikilvægustu leikmenn liðsins. Báðir eru komnir vel yfir þrítugt og Frode Lafton fyrirliði hefur verið hjá Hönefoss alla sína knattspyrnuævi. Báðir ótrúlega sterkir leikmenn sem gott er að hafa með sér í liðinu.“

Arnór er á ákveðnum tímamótum í lífi sínu. Hann er nú 26 ára gamall og í febrúar síðastliðnum lauk hann B.S. prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. ,,Möguleikinn að koma hingað til Noregs á góðum tíma,“ segir Arnór. ,,Það er frábært að fá tækifæri að spila knattspyrnu án þess að þurfa að sinna neinu öðru á sama tíma. Að vísu þurfti ég að klára þrjá kúrsa í skólanum en ég fékk að taka þá utanskóla. Ég tók síðan prófin fyrir jól og útskrifaðist núna í febrúar.“ Arnór segist ekki vera búinn að ákveða hvort hann fer í frekara nám. ,,Það á bara eftir að koma í ljós,“ segir hann.

Dagurinn byrjar kl.10.30 hjá Arnóri með æfingu. Yfirleitt stendur sú æfing yfir til hádegis. Liðið borðar síðan saman hádegismat kl.13.00 og svo er Íslendingurinn kominn heim til sín um 15.00. Hönefoss er nokkuð uppi í landi og því verður yfirleitt kalt í bænum í janúar og febrúar. Í ár var kuldinn yfirleitt í kringum -20. Það var því vel þegið að liðið var í Tyrklandi í 2 vikur og svo á Spáni í 2 vikur til að undirbúa tímabilið.

Undirbúningur fyrir keppnistímabilið hefur gengið nokkuð vel. Liðið spilaði við mörg sterk lið og náði ágætis úrslitum. Í síðasta undirbúningsleiknum, gegn Sandefjord sem útsendari blikar.is fylgdist með, yfirspiluðu Arnór og félagar hans þessa fyrrum andstæðinga úr 1. deildinni 5:1. Þess má geta að Hönefoss tapaði báðum leikjunum gegn Sandefjord í fyrra.

Samt er ljóst að tímabilið verður erfitt fyrir nýliðana. Flestir spá liðinu niður aftur en Arnór hefur litlar áhyggjur af þeim spádómum; ,,Við ætlum að njóta þess að spila í efstu deildinni. Það er engin pressa á okkur og heimavöllurinn á eftir að reynast okkur vel. Vonandi munu andstæðingar okkar vanmeta Hönefossliðið. Ég er reyndar þess fullviss að við höldum sæti okkar í deildinni,“ segir Blikinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson.

Andrés Pétursson

Til baka