BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fram - Breiðablik í Lengjubikarnum

21.03.2017

Strákarnir okkar mæta Fram í Lengjubikarnum á Framvellinum í Grafarholtinu á fimmtudag kl.19.15. Við unnum góðan sigur gegn Þrótti í síðustu umferð og nú mætum við öðru 1. deildarliði.

Liðin hafa oft háð harða rimmu og í mörg ár var hægt að ganga að því sem vísu að leikir þessara liða í efstu deild myndu enda með jafntefli. Að vísu er tölfræðin okkur aðeins í hag í Lengjubikarnum (áður Deildarbikar KSÍ) því frá 1997-2014 hafa okkar strákar unnið fjóra leiki, tapað tveimur og tveir leikir enduðu með jafntefli. Nánar hér. 

Síðasti leikur okkar við Fram í Lengjubikarnum var árið 2014 en þá unnum við þá bláklæddu 4:2 með tveimur mörkum frá Finni Orra og Tómasi Óla. Finnur Orri átti afmæli og skorði 2 mörk í tilefni dagsins. Allt um leikinn hér.

Tveir núverandi leikmenn Blika, Þróttararnir Arnþór Ari Atlason og Aron Bjarnason, léku með Fram á þessum tíma. Og það gerðu einnig tveir fyrrverandi leikmenn Blika, þeir Haukur Baldvinsson og Ósvald Jarl Traustason.

Strákarnir okkar spiluðu tvo æfingaleiki um síðustu helgi.

Á föstudagskvöldið unnum við HK 2:0 með mörkum frá Tokic og Arnþóri Ara og á laugardag unnum við ÍR 4:0 með mörkum frá Sóloni Breka (2), Ólafi Hrafni og Aroni Bjarnasyni. Blikaliðið er smám saman að taka á sig mynd fyrir sumarið og verður áhugavert að sjá hvernig þjálfararnir stilla upp byrjunarliðinu.

Úrslit annarra leikja hafa verið þannig að við verðum að vinna þessa tvo leiki (Fram og Leikni F.) sem eftir eru í LB riðlinum til að komast áfram.

Við hvetjum Blika til að mæta upp í Grafarholtið á fimmtudag til að hvetja okkar drengi til sigurs!

Til baka