BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lafði lukka með Blikum í liði í Árbænum

09.05.2016

Eftir ósigur í fyrsta leik voru Blikar staðráðnir í að gera betur gegn appelsínugulklæddum Fylkismönnum. Blikar gerðu tvær breytingar á byrjunarliði sínu frá því í fyrstu umferð. Atli Sigurjónsson kom inn í stað Höskuldar Gunnlaugssonar og Guðmundur Friðriksson kom inn í stað Arnórs Sveins Aðalsteinssonar sem var meiddur.

Byrjunarlið Breiðabliks var því: Gunnleifur - Guðmundur - Elfar Freyr - Damir – Alfons -Andri Rafn - Oliver - Atli Sigurjóns - Arnþór Ari - Daniel Bamberg - Guðmundur Ati

Varamenn: Hlynur Örn Hlöðversson (m) - Höskuldur Gunnlaugsson('60) - Davíð Kristján Ólafsson('46) - Ágúst Eðvald Hlynsson - Viktor Örn Margeirsson - Ellert Hreinsson('77) - Gísli Eyjólfsson

Í leikbanni Jonathan Glenn og Arnar Grétarsson þjálfari.

Leikskýrsla, myndband, myndir og aðrar umfjallanir.

Það var glampandi sól á Florídanavellinum í Árbænum og heimamenn á fullu að gera nýju og glæsilegu stúkuna sína fullgilda sem viðunandi áningarstað gestkomandi og heimamanna líkt. Fylkisburgerinn hefur reyndar verið betri þar sem undirritaður fékk kalt brauð og volgan hamborgara, þar hefur nú Blikaburgerinn vinninginn.

En að leiknum, bæði lið máttu þola ósigur í fyrstu umferð og og því var einkar mikilvægt fyrir bæði lið að vinna þennan leik. Fylkisliðið var eina liðið í fyrra sem hafði fleiri stig af okkar mönnum en við fengum tilbaka, tölfræðispekúlantar voru þegar búnir að koma með alls kyns staðreyndir um fyrri viðureignir þessara liða og töluvert verið fjallað um heimavallargrýluna sem fylgir þessum kappleikjum. Það er öllum sama, eða hvað?

Það var auglóst á leiknum að bæði lið ætluðu sér ekki að fara offorsi í sóknarleik til að byrja með, leikurinn var með rólegasta móti og ekki laust við það að maður sæti í stúkunni og hugsaði með sér hvort ekki væri kominn tími til að ná sér í sólarvörn númer 30+.

Fylksimenn reyndu fyrir sér með háum spyrnum sem oftar en ekki enduðu á kollinum á Elfari eða Damir. Blikar voru mikið að reyna að spila stutt sín á milli en völlurinn í Árbænum lítur jafnan betur út síðsumars og voru misfellur víða á velli. Stutta spilið var því úr sögunni og þá þarf að grípa í plan b, föst leikatriði. Þar erum við með Brasilíumann sem er einkar lunkinn við að þruma inn hnitmiðuðum sendingum á vítateig andstæðinganna og uppskáru Blikar mark eftir hornspyrnu á 12. mínútu leikisins þegar Arnþór Ari var mættur til að stanga sendingu Bambergs í markið og staðan orðin 0-1 gestunum í vil. Eftir markið efldust Blikar og voru nærri því að auka forskotið er Arnþór Ari reyndi sniðskot af löngu færi en allt kom fyrir ekki. 

Fylkismenn voru þó ekki á þeim buxunum að gefa Blikum “high five” og leyfa þeim að ganga til búningsherbergja með forskotið. Ó nei … heimamönnum óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn og tóku flest völd inn á vellinum og skoruðu mark, þar var að verki markamaskínan Albert Brynjar Ingason Björns Albertssonar Guðmundssonar. Einkar glæsilegt mark hjá honum með hálfgerðri hjólhestaspyrnu… tja eða klippu.

Skömmu áður hafði þversláin bjargað okkur frá marki og útlhlaup Gulla sem náði að ýta boltanum frá hættusvæði. Eftir jöfnunarmarkið skiptust liðin á að sækja án þess þó að skapa sér umtalsverð færi og staðan í hálfleik var 1-1.

Blikar gerðu eina skiptingu í hálfleik útaf kom hinn ungi Alfons Sampsted og inn kom Davíð Kristján Ólafsson. Síðari hálfleikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir glæsilega spilamennsku. Hann einkenndist af mikilli baráttu, mistökum beggja liða og mörgum sendingafeilum. Fylksimenn þó ívið líklegri til að skora annað mark. En það er þannig í fótbolta eins og Arnar Grétarsson myndi segja að menn uppskera það sem þeir sá. Sú varð akkúrat raunin á 80 mínútu þegar Damir Muminovic skoraði eftir aukaspyrnu Daniel Bambergs. Boltinn skoppaði til Damirs sem var eins og gammur á vítateignum og náði með beinni rist í boltann að koma honum framhjá markverði Fylkis. Staðan orðin 1-2 fyrir Blika og útlitið bjart. Eins og gefur að skilja þá bökkuðu Blikar í kjölfarið og reyndu að halda fengnum hlut en Fylkisógnin var ekki það yfirþyrmandi að við stæðum ekki af okkur mestu lætin. Höskuldur Gunnlaugsson sem hafði komið inn á sem varamaður fékk úrvalsfæri undir lok leiksins þegar hann skallaði fyrirgjöf Arnþórs Ara rétt framhjá markinu, óheppinn. En þegar uppbótartíminn var liðinn varð mikill atgangur fyrir framan mark Blika, tveir Fylkismenn fengu tækifæri til að ýta boltanum yfir marklínuna en á einhvern ótrúlegan hátt tókst þeim að þvælast hver fyrir öðrum og klúðra málum. Ágætur dómari leiksins, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, flautaði kappleikinn svo af og 3 stig heim í Kópavoginn. Vel þeginn !

Það er ljóst að Blikaliðið er að slípa sig saman og munu bara styrkjast á komandi dögum og vikum. Þegar vellirnir verða betri verður Blikaliðið það líka, því skal ég lofa.

Framundan er leikur gegn Víkingum Reykvíkinga á Kópavogsvelli. Sá leikur fer fram á föstudaginn næstkomandi kl 20:00 og það er leikur sem við ætlum að vinna !

GMS

Til baka