BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

KR–Breiðablik í undanúrslitum Lengjubikarsins

22.04.2012

Breiðablik er nú komið í undanúrslit Lengjubikarsins eftir góðan sigur á Keflavíkingum suður með sjó á miðvikudaginn 1-2. Hinn ungi Árni Vilhjálmsson skoraði gullfallegt mark og Haukur Baldvinsson tryggði okkur síðan áframhaldandi sæti í keppninni með góðu skoti í framlengingu. Þetta var sérstaklega ánægjulegt fyrir Hauk enda hefur átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarna mánuði. Vonandi gefur þetta stráknum aukna orku enda þurfum við á hraða hans og leikni að halda á Íslandsmótinu i sumar.

Andstæðingar okkar eru Íslandsmeistararnir úr Vesturbænum. Þeir hafa reyndar ekki verið mjög sannfærandi í vetur og átt misjafna leiki. En breiddin er mikil hjá liðinu og eru margreyndar jaxlar eins og Bjarni Guðjónsson og Grétar Sigfinnur í lykilhlutverki. Þetta verður því mjög erfiður leikur fyrir ungt Blikaliðið. En strákarnir okkar hafa sýnt það og sannað að þeir geta staðið i hárinu á bestu liðunum.

Liðin hafa einu sinni áður leikið í undanúrslitum Lengjubikarsins. Það var árið 2005 en þá slógu KR-ingar okkur út með 3-0 sigri.  Fimm árum síðar áttust liðin við í úrslitum Lengjubikarsins í leik sem KR vann 1-2. Síðast áttust liðin við fyrir rúmum mánuði í riðlakeppni Lengjubikarsins. Þeim leik lauk með 3-2 sigri KR-inga í mjög kaflaskiptum leik. En nú mæta Blikamenn til leiks frá fyrstu mínútu og spila til sigurs. Við mætum því galvaskir í Frostaskjólið og með góðum stuðningin áhorfenda ætlum við að sjálfsögðu að komast i úrslit í Lengjubikarnum eins og við gerðum árið 2010.

Áfram Breiðablik!

Ps. Við minnum líka á herrakvöldið og árgangamótið sem verður haldið næsta laugardag, 28. apríl

Til baka