BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kolbeinn tryggði stigið

05.12.2017

Blikar og KR gerðu 1:1 jafntefli í riðlakeppni BOSE mótsins í meistaraflokki karla.

Blikar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en þrátt fyrir mörg ágæt færi þá vildi tuðran ekki inn.

Hins vegar gáfum við þeim röndóttu mark á silfurfati og það var ekki fyrr en á lokamínútum leiksins sem unglingalandsliðsmaðurinn ungi og efnilegi Kolbeinn Þórðarson jafnaði með miklu harðfylgi.

Við unnum þar með riðilinn og spilum við Stjörnuna til úrslita á mótinu fimmtudaginn 14. desember kl. 19:00 í Fífunni.

Leikurinn var bráðfjörugur og töluvert um færi á báða bóga.

Okkar drengir voru klaufar að skora ekki að minnsta kosti 2-3 mörk í fyrri hálfleik. Gísli átti til að mynda hörkuskot í stöng úr aukaspyrnu og í nokkur skipti varði markvörður KR-inga mjög vel. En andartaks einbeitingarleysi í vörninni kostaði okkur mark. Vesturbæingar sóttu hart að okkur í byrjun síðari hálfleiks en vörnin hélt.

Þjálfararnir skiptu mörgum ungum og efnilegum leikmönnum inn á um miðjan síðari hálfleikinn og smám saman jókst sóknarþunginn okkar. Það var síðan undir lok leiksins að Kolbeinn setti þetta mikilvæga mark fyrir okkur og tryggði okkur jafntefli í leiknum.

Hátt í 20 leikmenn fengu að spreyta sig í leiknum og greinilegt að þjálfararnir hafa úr öflugum hóp að velja. Meðalaldur þeirra leikmanna sem luku leiknum var sjálfsagt í kringum 19 ára. Gaman var að sjá hve hinir ungu og efnilegu leikmenn Blikaliðsins áttu í fullu tré við fullvaxna Vesturbæinga.

Jonathan Hendrixz lék sinn fyrsta leik í græna búningnum og átti fínan leik. Gísli var að vanda gríðarlega öflugur á miðjunni og gaman að sjá hve óhræddur hann er að taka menn á.

Svo verður að minnast á innkomu Óskars Jónssonar á miðjuna í síðari hálfleik. Honum hefur farið mikið fram og greinilegt að spilatíminn sem hann fékk með ÍR í 1. deildinni síðasta sumar hefur reynst honum mjög vel.

En í heildina getur Blikaliðið verið sátt við frammistöðuna í leiknum fyrir utan færanýtinguna!

Það verður gaman að fylgjast með liðinu gegn fjandvinum okkar í Stjörnunni fimmtudaginn 14. desember kl. 19:00 í Fífunni. 

-AP

Myndaveisla í boði BlikarTV

Klippur úr leiknum í boði BlikarTV

Til baka