BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jóhann Baldurs - Kveðja frá Breiðabliki

26.05.2014

Í dag, þriðjudaginn 27. maí, verður til moldar borinn okkar góði félagi, Jóhann Baldurs sem lést þann 19.maí á 89. aldursári.

Leiðir Breiðabliks og Jóhanns Baldurs, eða Jóa Bald eins og hann var oft kallaður, hafa legið saman um áratugaskeið og Jói var dyggur félagsmaður fram á síðasta dag. Jói kom víða við í starfi starfinu hjá Breiðabliki og var jafnan bóngóður þegar til hans var leitað. Einkum voru það knattspyrnudeildin og handknattleksdeildin sem nutu starfskrafta hans og hann sat í stjórnum beggja deildanna, enda var hann mikill áhugamaður um þessar greinar, og um velferð Breiðabliks. Hann var líka áhugamaður um ensku knattspyrnuna og var fastagestur i getraunkaffinu í Smáranum á meðan heilsan leyfði. Og það fór ekki framhjá neinum að Liverpool var hans lið.
Jói var öflugur liðsmaður í hverskyns sjálfboðavinnu á vegum félagsins. Gilti þá einu hvort um væri að ræða mót eða sýningar á félagssvæðinu. Hann var léttur í lund og glettinn og hafði ánægju af að skylmast við menn á léttum nótum og skiptast á skoðunum um málefni líðandi stundar. En hann gat líka verið fastur fyrir ef svo bar undir og þá var ekki gefið eftir. Eftirminnilegt er þegar hann var sjálfboðaliði í Smáranum árið 1995 þegar Íslendingar héldu heimsmeistaramótið í handknattleik. Þá var honum einn daginn falið að gæta öryggis þýska liðsins og sjá til þess að leikmenn yrðu ekki fyrir truflun í búningsklefanum. Jói var ekki í vandræðum með þetta og þegar þýskir ljósmyndarar freistuðu þess, með  meiri frekju en honum líkaði, og létu ekki segjast, að brjóta sér leið inn að búningsherbergi og ljóst að ekki tjóaði að segja nei við mennina með góðu, brá okkar maður á það ráð að snúa einn þeirra niður í gólf í snarhasti og setjast á hann, nokkuð þungur á brún. Þá létu hinir segjast. Jói gat semsagt verið  ákveðinn og fylginn sér þó lundin væri létt. Árið 1996 stofnaði Jói, ásamt fleiri valinkunnum ,,heldri Blikum“ leikfimihóp í Smáranum og iðkaði þar æfingar um langt árabil í góðum hópi á meðan hann hafði þrek og heilsu til. Svo var drukkið kafi á eftir. Þá var oft glatt á hjalla, sagðar sögur og mörgu logið, eins og þar stendur. Hópurinn starfar enn af fullum krafti en nú er skarð fyrir skildi.
Ungmennafélagið Breiðablik þakkar Jóa langa og ánægjulega samfylgd og sendir fjölskyldu hans og vinum samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Jóhanns Baldurs.

Jóhann verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju og hefst athöfnin kl. 15:00.

Til baka