BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jafnteflisbarningur í Krikanum

12.09.2016

Blikar mættu Íslandsmeisturum FH í 18. umferð PEPSI deildarinnar í gær í Kaplakrika. Heimamenn voru með 7 stiga forystu á okkar menn fyrir leik og þetta var eiginleg síðasti séns að setja spennu í baráttuna um efsta sætið, og sjálfan titilinn. Og þó sigur myndi ekki endilega duaga til að vinna mótið myndi hann sannarlega hjálpa til í baráttunnni um Evrópusætin sem í boði eru. Það var því til nokkurs að vinna, svo ekki sé meira sagt. Það var sallafínt fótboltaveður í gær, nánast stafalogn en lofthiti svo sem ekki að kæfa liðið, tæpar 10°C. Völlurinn flottur.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Alfons Samsted - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Viktor Örn Margeirsson - Jonathan R. Glenn - Willum Þór Willumsson - Arnór Sveinn Aðalsteinsson - Ellert Hreinsson - Höskuldur Gunnlaugsson.

Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson - Atli Sigurjónsson
Leikbann: Enginn.

Leikurinn í gær hófst með braki og brestum og það var ekki mínúta liðin þegar Blikar fengu sannkallað dauðfæri, alveg gefins. Miðvörður gestanna var að dúlla með boltinn rétt utan vítateigs og Árni einfaldlega hirti boltann af honum og lék að marki og þrumaði svo boltanum yfir marki. Þarna fór gott færi forgörðum. Hafi heimamenn ekki verið taugtrekktir þegar þegar leikurinn hófst þá virtist þetta allavega ekki róa þá því þeir fóru með boltann eins og heita kartöflu og afhentu okkar mönnum hann trek í trekk á silfurfati. Blikar tóku öll völd á vellinum og FH ingar voru ráðleysislegir lengi og náðu engum takti í sinn leik. Okkar menn voru svo sem ekki að skapa mikið en voru löngum stundum með boltann og áttu nokkrar ágætar rispur upp vængina en náðu ekki að gera sér mat úr oft tíðum ágætlega útfærðum sóknum. Þ.e.a.s. þær voru fínar þangað til komið var að teig FH, þá rann þetta allt út í sandinn. Eiginlega saga sumarsins 2016 í hnotskurn.
Blikum gekk illa að skapa færi og það eina markverða var þegar Gísli kom stormandi á vörnina og gaf sér smá tíma í að koma varnarmanni FH úr jafnvægi. Það tókst ágætlega en skotið miður því hann hitti boltann herfilega og ekkert varð úr. Að öðru leyti var lítið að frétta og Blikar héldu áfram að senda á milli sín lon og don en heimamenn horfðu á, eltu og lokuðu svæðum. Af og til voru samt návígi og eftir nokkur slík þar sem við unnum boltann gátum við farið hratt í átt að markinu og stundum var lagt af stað en oft bremsað og snúið við, gefið til baka og jafnvel alveg aftur á Gulla. Þetta virkaði einkennilega á mann. Það hefði verið allt í lagi að ráðast á þá oftar og fara alla leið að vítateig og jafnvel skjóta á markið. FH virkuðu mjög óöruggir og það var einso okkar menn skynjuðu ekki tækifærin, eða kannski var kjarkurinn ekki til staðar? Endalaust verið að gefa til baka og gefa FH um leið færi á að skipuleggja sig og loka á okkur. Og eiginlega þegar maður var hættur að búast við nokkrum sköpuðum hlut þá kom mark. Og algjörlega upp úr þurru. Miðverði FH, þeim sama og gaf Árna færið á 1.mínútu, fannst ekki alveg fullreynt með að gefa okkur dauðafæri og endurtók nú leikinn. Gaf reyndar á Gísla í þetta inn, og hann kom boltanum snarlega á Árna og nú urðu honum ekki á nein mistök því hann renndi boltanum af öryggi í netið. Staðan 1-0 fyrir Blika. Kættust nú Blikar mjög og hugðu gott til glóðarinnar. En það stóð reyndar ekki lengi því nær samstundis voru heimamenn komnir í sókn og búnir að jafna leikinn. Það tók innan við mínútu. Helv.. andsk... einbeitingarleysi hjá okkar mönnum, svo það sé bara sagt hreint út, og þarna fóru þeir heldur betur illa að ráði sínu.
Það sem eftir lifði hálfleiks bar fátt til tíðinda utan það að heimamenn fengu hornspyrnu á lokasekúndunum og það var fyrsta hornspyrna leiksin og segir kannski ákveðna sögu um rólegheitin inni á vellinum.

Staðan í hálfleik 1-1 og mönnum varð tíðrætt um fyrirsjánlegt dútlið á okkar mönnum. Vantaði meiri grimmd og snerpu í sóknarleikinn og enn eru menn að sleppa því að skjóta á markið. Það var ekki talið líklegt að FH myndi eiga jafn slakan seinni hálfleik og því bölvað að hafa ekki nýtt möguleikana betur í þeim fyrri.

Síðari hálfleikur var tíðindalítill lengi framan af fyrir utan að heimamenn náðu hættulegri skyndisókn en voru lengi að ákveða hvernig ætti að slútta og því rann hún út í sandinn. Blikar vildu fá víti þegar Andri Rafn féll í vítateig heimamanna en dómarinn lét vera. Andri er reyndar maður sem reynir alltaf að standa í lappirnar þannig að við teljum að þarna hafi verið víti þar til annað sannast. Elfar Freyr yfirgaf völlinn skömmu síðar og Viktor Örn kom inn í hans stað. Skömmu síðar þurfti Gulli að taka á honum stóra sínum þegar heimamenn voru komnir í álitlegt færi. Höskuldur kom svo  inn fyrir Gísla, sem var reyndar búinn að vera einna frískastu Blika fram á við. Leikurinn hélt áfram í sömu hjólförunum og ef eitthvað var voru heimamenn nú komnir með frumkvæðið og gerðu sig líklegri. Og þeir fengu sannkallað dauðafæri skömmu fyrir leikslok  en skölluðu framhjá fyrir opnu marki. Ellert kom inn fyrir Arnþór Ara í lok venjulegs leiktíma en fleira gerðist ekki í þessum leik sem vert er að færa til bókar. Síðari hálfleikur afar kraftlaus af okkar hálfu og það var eins við værum bara ánægðir með jafnteflið. Það finnst mér alveg óskiljanlegt og veit svo sem að er ekki rétt og leikmenn eru örugglega drullufúlir í dag. En verkin tala og það er bara ekki nóg að vera fúll daginn eftir. Það þarf að spila leikinn á meðan hann er.

Næsti leikur okkar er útileikur gegn Valsmönnum á fimmtudag og hefst kl.20:00. Það þýðir að leikið verður í flóðljósum.
Nú þurfa Blikar að fjölmenna og hvetja okkar menn. Leikmenn vita að þeir geta betur en í gær og stuðningsmenn geta miklu betur. Nú þurfa einfaldlega allir að leggjast á árarnar með okkar mönnum í baráttunni um sæti í Evrópkeppninni 2017.
 
Allir á völlinn og 3 stig takk!

Áfram Breiðablik!
OWK.

Umfjallanir netmiðla

Til baka