BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jafntefli í hörkuleik

12.05.2015

Blikar fengu KR inga í heimsókn í annari umferð PEPSI deildarinnar, á 60 ára afmælisdegi Kópavogskaupstaðar. Blessuð maísólin skein glaðlega á afmælisbarnið og yljaði svo að hæg norðankælan náði ekki að skemma ,,vorstemmninguna“ að ráði þó lofthiti næði varla 6°C. Og það var fjölmennt á vellinum í kvöld og hvert sæti skipað þegar dómari nn blés í flautuna.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Guðjón Pétur Lýðsson - Andri R. Yeoman - Gunnlaugur Hlynur Birgisson - Davíð Kristján Ólafssson - Ellert Hreinsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Sólon Breki Leifsson
Olgeir Sigurgeirsson
Ismar Tandir
Kári Ársælsson
Guðmundur Friðriksson
Viktor Örn Margeirsson

Sjúkralisti: Oliver Sigurjónsson, Arnþór Ari Atlason
Leikbann:  

Leikskýrsla.

Blikar byrjuðu leikinn af krafti og virkuðu frískir og ákveðnir. Fótboltinn var nú samt heldur stórkarlalegur fyrstu mínúturnar og ljóst að völlurinn á enn langt í land með að teljast góður. Það kemur. En svo náðu Blikar að prjóna í eina eða tvær álitlegar sóknir og til að gera langa sögu stutta þá dró til tíðinda í snarpri sókn okkar manna þegar þeir fengu dæmda aukaspyrnu talsvert fyrir utan vítateig gestanna. Guðjón Pétur tók spyrnuna og sendi þéttingsfastan bolta inn á teig og þar kom Höskuldur á fleygiferð og kastaði sér á boltann og skallaði niður í bláhornið óverjandi fyrir markmann gestanna. Glæsilegt hjá Höskuldi og sendingin var ekki síðri. Staðan 1-0 fyrir Blika og nú var kátt í stúkunni og menn gerðu sig klára fyrr hlaðborðið sem blasti nú við. En það var eins og við manninn mælt að Blikar lögðu nú til hliðar spilið sem var komið i gang og hleyptu KR ingunum inn í leikinn og nánast afhentu hann á silfurfati. Það sem eftir lifði hálfleiksins má segja að Blikar hafi átt í vök að verjast og gerðu það svo sem ágætlega þannig að gestirnir fengu ekki mikið af færum, en oft stóð það tæpt. Og svo þegar við héldum að menn myndu nú hanga á þessu fram að hálfleik dundi ógæfan yfir. Og nú léku tveir af reynslumestu leikmönnum okkar aðahlutverkið. Því miður. Fyrst missti Kristinn boltann klaufalega frá sér þannig að KR ingar náðu boltanum og spiluðu sig í gegn og upp að endamörkum. Þaðan kom sending fyrir markið sem Arnór virtist vera með á hreinu en ekki vildi betur til en hann nánast lagði boltann fyrir fætur sóknarmanns KR sem þakkaði pent og þrumaði boltanum í netið af markteig. Hrikaleg mistök – og sjaldséð hjá þessum tveim reynsluboltum.  Staðan 1-1 og dómari blés til hálfleiks um leið og Blikar tóku miðjuna. Armæðis svekkelsi og óþarfi enda voru það fúlir Blikar sem gengu til búningsklefa, að ekki sé nú talað um hina sem fóru í snúðana og kaffið.

En kalt mat á hálfleikinn lá fyrir. Við höfðum gefið allt of mikið eftir eftir að hafa náð forystunni og menn vonuðust eftir meiri spilamennsku í seinni hálfleik. Halda bolta meira og vera hreyfanlegri í stað þess að vera í þessum löngu boltum fram, sem oftar en ekki enduðu hjá andstæðingunum.

Blikar komu með óbreytt lið í seinni hálfleikinn og hann hófst á svipuðum nótum og sá seinni endaði. Gunnleifur mátti taka á honum stóra sínum strax í upphafi og það gerði hann svo aftur síðar þegar boltinn virtist á leiðinni í markvinkilinn.  Svo fóru nú miður skemmtilegir hlutir að gerast. Fyrst fékk Arnór mikið högg á gagnaugað og var stumrað lengi yfir honum. Hann reis svo á fætur og yfirgaf völlinn eins og lög gera ráð fyrir en í þann mund sem hann gerði sig líklegan til að koma inná þá varð harður árekstur hinu megin vellinum og eftir lágu Ellert og einn Kringur. Ellert varð að yfirgefa völlinn og í hans stað kom Ismar Tandir sem lék þar með sinn fyrsta leik i efstu deild fyrir Blika. Hann stóð sig ágætlega og var ekki mikið að flækja hlutina. Stór og stæðilegur leikmaður sem ætti að geta kvalið varnarmenn með óþægilegri nærveru. Skömmu síðar áttu gestirnir hættulegt færi en skalli þeirra fór naumlega framhjá. Blikar fóru nú heldur að hressast en náðu þó ekki sama takti og í byrjun leiks. Liðin sóttu á víxl og veitti nú ýmsum betur eins og þar segir, allt þar til gestirnir náðu snörpu upphlaupi og komust í gegnum vörn okkar vinstra megin og þar komst einn þokkapiltur úr röðum þeirra röndóttu einn í gegn og smellti boltanum framhjá Gunnleifi og í netið.  Staðan 1-2 og nú súrnaði stemmningin heldur hjá heimamönnum. En það stóð ekki lengi. Blikar tóku miðjuna og geystust í sókn og henni lauk Guðjón Pétur með skoti af 25 metra færi sem söng í neti gestanna. Markmaður þeirra hafði að vísu hönd á boltanum en skotið var fast og sennilega hvorttveggja, snúningur og flökt á boltanum svo í netinu söng hann. Fallega. Staðan aftur jöfn og nú fóru í hönd all æsilegar lokamínútur. Blikar settu nú Olgeir (312 leikir) inn á fyrir Davíð. Bæði lið áttu álitlegar sóknir og færi en hvorugu tókst að nýta sér það. Minnstu munaði þegar Olgeir var nálægt því að setja eitt í lokin. Það hefði verið vel þegið, en varnarmaður KR bjargaði í horn.
Niðurstaðan 2-2 jafntefli í hörkuleik sem bauð upp á ýmislegt sem prýða má góðan fótboltaleik. En það var dálítið naumt skammtað á diskana. Okkur langaði í meira.  Um  dómarann verður ekki fjallað hér en það var vel af sér vikið hjá honum, en að sama skapi óvænt, að hann skyldi spjalda þennan eina KRing. Af hverju sleppti hann því ekki bara?
Blikar geta æi sjálfu sér ekki kvartað undan úrslitunum í kvöld – en sannarlega geta þeir kvartað yfir heildar frammistöðunni og litið í eigin barm. Þar er ýmislegt að finna sem betur má fara og hægt er að laga og það þurfa þeir að gera fyrir næsta leik sem er í Keflavík n.k. sunnudag og hefst kl. 20:00.
Þangað mætum við og styðjum okkar menn.

Áfram Breiðablik !

OWK

p.s.
Það var frekar þreytandi að hafa þennan markmannsþjálfara, eða á maður að segja öskurapa, KR-inga hlaupandi út úr varamannaskýlinu og út fyrir boðvanginn í tíma og ótíma rífandi kjaft og heimtandi brot og spjöld á andstæðingana. Er hann með sérstakt leyfi fyrir þessari hegðun? Og hvað mega margir úr liðsstjórn KR-inga standa við hliðarlínuna á meðan á leik stendur?
Girða sig!

Til baka