BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Íslensk Já takk!

30.09.2017
Milos ákvað að skella í eina íslenska uppstillingu fyrir FH leikinn og sá gambítur skilaði þremur góðum stigum í Kaplakrika í dag. Sá sigur var fyllilega verðskuldaður enda áttum við nokkur góð tækifæri áður en BAKVÖRÐURINN Arnþór Ari smellti knettinum í markið með flottu skoti eftir frábæra sendingu Arons Bjarnasonar. Á margan hátt var þetta einn besti leikur okkar í sumar enda fékk boltinn að rúlla hratt fram á við á milli manna og varnarleikurinn með Gulla sem besta mann var traustur.
 
Veðurguðirnir ákváðu að skella í ljúfan sunnanblæ á þessum haustdegi og fór nokkuð vel um áhorfendur í stóru stúkunni á Kaplakrika. Formaður knattspyrnudeildar FH stikaði hins vegar órólegur um sætin norðan megin í Kaplakrikanum og höfðu stuðningsmenn Blika nokkrar áhyggjur af honum þegar hann seig niður á milli sætaraðanna þegar sigurmarkið kom. En sem betur fer hjarnaði hann fljótlega við og hélt áfram fyrri iðju. Við mælum hins vegar ekki með þessu fyrir formenn deilda enda virðist þetta ekki skila neinum árangri fyrir liðið og er bara íþyngjandi fyrir hjartað.
 
Oft hefur maður upplifað meiri stemmningu á Kaplakrika en í þessum leik. Áhorfendur voru ekki nema um 500 og langt síðan svo fáir hafa verið á leik FH og Breiðabliks. Greinilegt að gengi sumarins hefur farið illa í stuðningsmenn Fimleikadrengjanna enda eru þeir góðu vanir og hugsanlega spilltir af mikilli velgengni undanfarinna ára. Eins og oft áður fylgdi samt öflugur kjarni Blika liðinu sínu og létu þeir ágætlega í sér heyra. Kættust þeir mjög þegar markið kom enda skriðum við upp töfluna og í lokin var ljóst að sigurinn fleytti okkur upp í sama sæti og í fyrra. Miðað við hvernig staðan var á liðinu á tímabili í sumar þá getum við þokkalega vel við unað. 
 
Ekki hefur verið upplýst hvers vegna hvorki Tokic né Dino voru í hóp en báðir voru í byrjunarliðinu í síðasta leik. Einnig var Martin Lund skellt á bekkinn en í þeirra stað komu Willum, Sveinn Aron og Kristinn í liðið. Greinilegt var að stressleysið hafði góð áhrif á Blikaliðið. Eftir smá hroll í byrjun leiks tóku strákarnir okkar yfir leikinn og áttu nokkrar snilldar sóknir. En þvi miður tókst ekki að koma knettinum í mark og þar  það einkum svekkjandi þegar Willum jr fékk gullið tækifæri en ákvað að gefa knöttinn. Þeim skilaboðum er hér með komið í Bakkasmárann að menn eiga að skjóta þegar tækifæri gefst!  Jafnvel þótt leikmaður sé vel uppalinn og kurteis og eigi vandaða foreldra þá eiga menn að skjóta á markið! Náið þið þessu Ása og Willum Þór Snr.!
 
Tveir sigurleikir í röð hjá Blikaliðinu núna í lok móts er örlítill plástur á sárið hjá leikmönnum og stuðningsmönnum eftir þetta mikla vonbrigðasumar. Liðið sýndi mikinn karakter í sigrinum gegn ÍBV og í þessum leik sannaði Blikaliðið hve margir góðir knattspyrnumenn eru þar innanborðs. Gísli Eyjólfs var gríðarlega öflugur á miðjunni og einnig átti Willum fínan leik aftarlega á miðjunni. Sveinn Aron var sterkur framan af leik og sýndi likamlegan styrk þegar Dumbía hrundi af honum eins og písl. Marga rak lika í rogastans þegar þeir sáu Arnþóri Arasyni stillt upp í bakverðinum en hann var síógnandi með hraða sínum og hlaupagetu. Það er spurning hvort þarna sé ekki komin framtíðarstaðan hans!  Elfar Freyr og Damír voru öryggið uppmálað í hjarta varnarinnar og sýndu hvers vegna Blikaliðið fékk á sig langfæst mörk allra liða í Íslandsmótinu 2015. Svo má ekki gleyma hlut Gulla í markinu en hann átti þrjár heimsklassa markvörslur í fyrri hálfleik.
 
Blikaliðið er nú komið í langþrátt frí og munu leikmennirnir dansa frá sér vonbrigði sumarsins undir taktföstu stuði Páls Óskars í kvöld. Það jákvæða sem menn geta hins vegar tekið með sér inn í veturinn eru þessir tveir sigurleikir í lokin. Það er öruggt að Blikaliðið kemur mun sterkara til leiks næsta sumar. Ungir og efnilegir leikmenn hafa fengið tækifæri í sumar og eldri og reyndari menn koma reynslunni ríkari. Blikar! -  munum að framtíðin er okkar!
 
- AP
 
Upphitun og tölfræði
 
Umfjallanir netmiðla og myndir
 
Sjá stoðsundinguna og markið. 
 

Til baka