BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Illa farið með færin

03.05.2016

Pepsi deildin rúllaði af stað í dag, á sjálfum hátíðisdegi verkalýðsins og Blikar mættu Víkingi frá Ólafsvík í fyrsta heimaleik sumarsins. Veður var hið besta og bara allgott miðað við árstíma, ekki sérlega hlýtt,  en allbjart, hiti nálægt 4°C, loftraki 86% og logn veðurs. Völlur allmikið betri að sjá en á sama tíma undanfarin ár en samt laus í sér og varð leikmönnum nokkuð oft fótaskortur. Vonandi eru hlýrri dagar í nánd og þá ætti völlurinn að komast í toppstand. Skrifari kom af óviðráðanlegum ástæðum nokkuð seint á völlinn  og eru allir hlutaðeigandi, sem telja sig eiga rétt á afsökunarbeiðni þess vegna, hér með beðnir afsökunar. Formlega og svart á hvítu.
En snúum okkur þá að leiknum eða a.m.k. síðustu 75 mínútum hans.;

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M) - Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Alfons Sampsted - Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Guðmundur Atli Steinþórsson

Varamenn:
Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Ellert Hreinsson - Guðmundur Friðriksson - Gísli Eyjólfsson - Atli Sigurjónsson - Viktor Örn Margeirsson - Davíð Kristján Ólafsson

Leikbann: Jonathan Glenn

Leikskýrsla og nánari upfjöllun.

Undirritaður hefur það fyrir satt að leikurinn hafi farið rólega af stað og engin markverð tækifæri litið dagsins ljós fyrstu 15 mínúturnar. Fyrsta gula spjaldið fór á loft þegar brotið var harkalega á Höskuldi og hann hreinleg hogginn niður aftanfrá. Ljótt brot.. sami gaur fór svo í svaðalega tæklingu á Andra korteri síðar og hefði þá átt að fá a.m.k. gult og þar með rautt, en slapp með það. Marktækifærin voru hinsvegar af skornum skammti. Eftir um hálftíma leik voru Blikar komnir með þokkaleg tök á sínum leik og áttu þá fyrsta umtalsverða færið í leiknum en markvörður gestanna varði skot Arnþórs Ara. Skömmu síðar barst boltinn inn á vallarhelming Blika og þar brást mönnum bogalistin í varnarleiknum og annar framherji gestanna náði að athafna sig og stilla boltanum upp fyrir hinn framherjann og hann negldi á markið og í netinu söng knötturinn án þess Gunnleifur fengi rönd við reist. Búmm !!  0-1. Ekki beinlínis skv. gangi leiksins en svona er þetta oft í boltanum þegar menn gleyma sér augnablik. Blikar voru alveg slegnir út af laginu, innan og utan vallar en þessir sem voru inná voru þó fljótir að ná sér og áttu þokkalegar tilraunir til að jafna metin fyrir hlé og það munaði litlu þegar gestirnir komust fyrir skot Höskuldar frá markteig. En fleiri urðu færin ekki og með þetta mark á bakinu drögnuðust okkar menn inn í hálfleik og áhorfendur í hálfleikskaffið.
Þar var engin sérstök gleði en Blikar þó þokkalega vongóðir að okkar menn næðu vopnum sínum í seinni hálfleik. Aðeins ákveðnari sendingar og meiri hraða og þá kæmu færin. Okkur gekk alveg ágætlega að komast á bak við vörn gestanna þegar boltinn gekk nógu hratt. Sögðu mennirnir sko.... 

Blikar hófu síðari hálfleik með djöfulgangi og látum og áður en 5 mínútur voru liðnar voru okkar menn búnir að koma boltanum í netið. Þar var að verki Andri Rafn en hann nýtti sér klaufagang í vörn gestanna eftir mikinn hasar í teignum og nánast labbaði með boltann yfir línuna.  Áður höfðu Blikar átt hverja sóknina á fætur annari og markið kom loks eftir að gestirnir höfðu tvívegis naumlega bjargað í horn, varið á línu og markvörður gestanna varið 2svar frá okkar mönnum. Þannig að þetta var nú lágmarksárangur, að vera með jafna stöðu eftir 50 mínútur. En skömmu síðar skall hurð nærri hælum við okkar mark þegar Elfar Freyr brenndi af í dauðafæri einn gegn Gunnleifi. Þar voru Blikar heppnir. Líka Elfar. Gestirnir fengu hornspyrnu en ekkert varð úr henni.  Blikar brunuðu strax í sókn og Guðmundur Atli komst í gegn og skaut á markið en markvörðurinn enn á réttum stað. En hann sló boltann beint fyrir markið og þar var Arnþór Ari staddur. En nú var eins og tíminn stæði kyrr. Arnþór virtist ekki geta annað en skorað og skallaði á autt markið en á einhvern óskiljanlegan hátt náði varnarmaður gestanna að sveigja afstæðiskenningu Einsteins til og komast á aukinn ljóshraða. Allir sáu boltann í markinu en skyndilega var boltinn kominn í burtu. Er massi þessa leikmanns óendanlegur?  Áfram hélt leikurinn og næstu mínúturnar var þetta heldur jafnara og liðin sóttu á víxl en færunum fór nú fækkandi og þetta varð meira miðjustapp. Blikar gerðu sig þó af og til líklega og Guðmundur Atli var ekki fjarri þegar hann sneiddi boltann naumlega framhjá eftir góða fyrirgjöf frá Arnóri. Aftur var Guðmundur nærri því að skora þegar hann elti nánast vonlausan bolta en markvörðurinn missti boltann frá sér og okkar maður var hársbreidd frá því að ná honum.  Þarna hefði hann átt skilið að skora og svona dugnaður á vonandi eftir að skila marki eða mörkum í sumar. Skömmu síðar komu Ellert og Atli inn fyrir Guðmund og Höskuld og Blikar gerðu svo sína þriðju skiptingu þegar Gísli kom inn fyrir Oliver. Leikurinn var nú í jafnvægi og spurning hvort okkar menn næðu að hlaða í smá áhlaup síðustu mínúturnar en það fór nú á annan veg.  Það voru nefnilega gestirnir sem náðu forystunni enn á ný. Eftir að Blikum mistókst að eiga við háan bolta inn að vítategslínu okkar barst boltinn út til hægri á leikmann gestanna og hann fékk að athafna sig við vítateishornið hægra megin og þar var ekkert verið að dunda við málið heldur látið vaða og boltinn söng í netinu, sláin inn alveg í markvinklinum. Óverjandi.  Blikar voru sem steini lostnir og aðeins átta mínútur til stefnu. Okkar menn gerðu hvað þeir gátu en gestirnir fóru í það drepa leikinn eins og stundum er sagt og tókst það með ágætum. Við hefðum mátt sýna örlítið meiri yfirvegun þegar við vorum að reyna og það sem eftir var leiks náðum við ekki að ógna að ráði. Gestirnir urðu sér úti um rautt spjald og var það verðskuldað og ekki vonum fyrr. En það var það síðasta sem fært var til bókar.

Lokaniðurstaðan, tap í fyrsta leik sumarsins. Það var auðvitað ekki það sem stefnt var að og það var frekar ósanngjarnt að tapa þessum leik. Við höfðum ágæt tök á leiknum og áttum nægilega mörg skot og fengum næg færi til að vinna þennan leik, en gerðum það ekki.
Liðið spilaði ágætlega á köflum í dag og hefði á góðum degi sett 3-4 mörk. En það vantaði meira bit og meiri frekju inni í teig. Mörk gestanna svo sannarlega af dýrari gerðinni en engu að síður fengu þeir í báðum tilvikum of mikið pláss og tíma upp við okkar vítateig. Það þarf að laga strax.

Kopacabana voru flottir í stúkunni og þrusumæting á völlinn. Það var jákvætt.

Næsti leikur er gegn Fylki í Lautinni n.k. sunnudag og hann hefst kl. 19:15. Þangað fjölmennum við og styðjum við bakið á okkar mönnum.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka