BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Illa farið með færin

19.06.2015

Í kvöld léku Blikar við KA í 16 liða úrslitum Borgunarbikarsins. Aðstæður voru með fínasta móti í kvöld. Hæg gola og sólarlaust,  lofthiti ekki til trafala eða c.a. 8°C. Völlurinn blautur og virkaði nokkuð loðinn og þungur. En það var fámennt á vellinum í kvöld og Kópacabana menn sem hafa staðið vaktina með ágætum undanfarið voru bara hvergi sjáanlegir. Það er alveg með ólíkindum. Vonandi hefur jörðin ekki gleypt þá og hina c.a. 600 sem vantaði!
KA menn eru í harðri baráttu í 1. deild og ætla sér upp í úrvalsdeildina en hafa aðeins verið að hiksta þar. Um Blika þarf ekki að hafa mörg orð. Við vitum öll hvað þeir hafa verið að bardúsa að undanförnu og það hefur sannarlega ekki vantað að athyglin væri á liðinu og einstökum leikmönnum í fjölmiðlum. Það er orðið gott í bili.
Talsverðar breytingar voru á byrjunarliði frá síðasta leik. U-21 árs leikmennirnir voru hvíldir eftir strembna dagskrá síðustu daga.Höskuldur fór á bekkinn og Oliver fékk alveg frí. Guðjón Pétur fór lika á bekkinn ásamt Damir. Talsverðar breytingar og kærkomið tækifæri fyrir þá sem hafa mátt verma bekkinn og/eða verið utan hóps að fá ,,alvöru leik“.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M) - Arnór Aðalsteinsson (F) - Viktor Örn Margeirsson - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson - Davíð Kristján Ólafsson - Gunnlaugur Hlynur Birgisson - Atli Sigurjónsson - Andri R. Yeoman - Arnþór Ari Atlason - Ellert Hreinsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Guðjón Pétur Lýðsson
Damir Muminovic
Höskuldur Gunnlaugsson
Olgeir Sigurgeirsson
Kári Ársælsson
Guðmundur Friðriksson

Sjúkralisti: Enginn
Hvíldur: Oliver Sigurjónsson
Leikbann: Enginn

Leikskýrsla.

Eins og svo oft áður voru okkar menn meira með boltann, nánast frá byrjun og gestirnir biðu aftarlega á vellinum en gáfu lítið pláss og lítinn frið nálægt eigin marki. Blikar voru fullhægir í sínum aðgerðum og boltinn hafði iðuleg viðkomu hjá allt of mörgum mönnum þegar við sóttum. Fyrir vikið urðu gestirnir fyrir lágmarksónæði og á löngum köflum komumst við hvorki lönd né strönd. Samt sem áður hefði fyrri hálfleikur átt að duga til að ná góðri forystu, Til þess fengum við tvö dauðafæri og svo allmörg tækifæri þar sem óvandaðar og illa tímasettar sendingar eyðilögðu upplögð sóknarfæri. Það var í raun ótrúlegt að sjá hvað okkur voru mislagðir fætur og eins og einbeitingin væri illa fjarri. Fyrir vikið var 0-0 í hálfleik og það hefði eitt og sér átt að vera næg aðvörun fyrir mannskapinn til að gefa aukalega í seinni  hálfleikinn og skerpa á einbeitingunni.
Það var ekki mikil hamingja í hálfleikskaffinu og menn á einu máli að hættan biði á næsta leyti, að óbreyttu. Blikar yrðu að girða sig í brók. Mönnum varð tíðrætt um breytta liðsskipan en töldu næg gæði til staðar til að klára leikinn. Það væri ekki við breytingarnar að sakast, og reynslumennirnir yrðu einfaldlega að stíga upp.
En síðari hálfleikur var mjög á svipuðum nótum. Tómt basl og mikið um mistök hjá okkar mönnum.  Þrátt fyrir það fengu þeir næg færi til að klára leikinn en var alveg fyrirmunað að setj´ann. Höskuldur og Guðjón Pétur komu inn fyrir Arnþór og Andra í venjulegum leiktíma en allt kom fyrir ekki. Skot í stöng, tvívegis varið á línu og nokkrum sinnum var markvörður gestanna vel á verði. En í blálokin mátti þó engu muna að gestirnir skoruðu eftir aukaspyrnu, en boltinn small í stönginni. Því þurfti að grípa til framlengingar og í henni skoruðu gestirnir eina mark leiksins í einu sókn sinni í fyrri hálfleik framlengingarinnar. Damir kom inn fyrir Gunnlaug og okkar menn gáfu í og freistuðu þess að jafna en KA menn vörðu forystuna eins og grenjandi ljón. Þeir voru reyndar stálheppnir nokkrum sinnum að sleppa og markvörður þeirra bauð upp á nokkrar ævintýralegar vörslur á lokamínútunum. Það var vægast sagt ótrúlegt að horfa á. En við vorum samt bölvaðir ekkisens klaufar að ná ekki marki.  4-5 stykki hefðu dottið á góðum degi. Þetta var bara ekki einn slíkur.

En svona fór um sjóferð þessa og sannaðist enn einu sinni að það er sitthvað, deild eða bikar og á því fengu Blikar að kenna í kvöld. Í þessari keppni þarf að vinna 5 leiki til að hampa sigurlaununum og bannað að tapa. Þá er ,,ahbú“, eins og börnin segja. Og nú er það staðan hjá okkur. Því miður. Vonandi hafa menn lært eitthvað af þessum leik. Það mun koma í ljós.

Ódýrasta skýringin á tapinu er að vísa í breytingarnar á byrjunarliðinu og kenna þeim um. Það sáu hinsvegar allir sem voru á vellinum að málið er ekki svo einfalt. Það voru ekki síður ,,fastamennirnir“ sem virkuðu linir og einbeitingarlausir í stað þess að draga vagninn. Þeir voru sumir mjög ólíkir sjálfum sér og þá fer oftast illa. Og þeir fengu að kenna á því í kvöld.

Næsti leikur er á sunnudag gegn FH í PEPSI deildinni og hann hefst kl. 20:00
Það er toppslagur og vonandi fjölmenna allir Blikar í Krikann.  Nú þarf að láta verkin tala.
Þá verður stuð.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka