BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hlíðarendapiltar engin fyrirstaða!

16.04.2015

Blikar unnu stórsigur 5:1 á liði Valsmanna í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins í Fífunni í kvöld. Okkar drengir voru miklu betri í leiknum og sigurinn síst of stór.  Það voru þeir Ellert Hreinsson 2, Höskuldur Gunnlaugsson 2 og Arnþór Ari Atlason sem settu mörk Blikaliðsins.

Valsmenn áttu reyndar fyrsta færið í leiknum en náðu ekki að gera sér mat úr því strax á fyrstu mínútu leiksins. Eftir það tóku þeir grænklæddu öll völd á vellinum. Valsara voru eins og statistar fyrstu 20 mínútur leiksins og sóknirnar buldu á félaga okkar Ingvari Kale í marki KFUM-drengjanna. Við náðum hins vegar ekki að skora nema eitt mark og það gerði Arnþór Ari á 18. mínútu leiksins eftir flottan undirbúnings Kristins Jónssonar. En þá kom smá kæruleysi í okkar menn, þeir fóru að gefa eftir og rétt fyrir leikhlé jöfnuðu Valsmenn úr vítaspyrnu sem var dæmd á Gunnleif innan teigs.  Algjör óþarfi það mark og góð viðvörun til okkar pilta að það má aldrei gefa eftir.

Arnar skipti Guðjóni Pétri inn á fljótlega í síðari hálfleik og þá fóru hlutirnir að gerast.Fyrst skoraði minnsti maðurinn á vellinum, Höskuldur Gunnlaugsson með skalla eftir hornspyrnu Guðjóns Péturs. Aðeins 5 mínútur síðar kom Ellert boltann í netið eftir hornspyrnu frá Kristni. Ellert sýndi síðan í hvers konar formi hann er þessa dagana þegar hann stakk vörn Valsmanna í næstu sókn og sendi knöttinn örugglega í Valsnetið. Undir lok leiksins bætti Höskuldur öðru marki sínu við og fimmta marki Blika eftir frábæran samleik sex leikmanna Blikaliðsins. 

Blikaliðið sýndi að það er hörkuformi þessa dagana og Spánarferðin hefur greinilega farið vel í leikmennina. Bakvarðarparið Arnór og Kiddi eru í landsliðsklassa og öskufljótir kantmenn, Arnþór Ari, Höskuldur og Davíð skapa gríðarmikinn usla með hraða sínum og leikni. Hafsentarnir Elfar Freyr og Damír eru stríðsmenn sem gefa ekkert eftir en verða stundum að passa sig að klappa ekki boltanum of mikið. Ellert er greinilega í besta formi lífs síns og hann á að geta skorað ófá mörkin fyrir okkur í sumar.

Við mætum Víkingum í 4-liða úrslitum á sunnudaginn kl.16.00. Ekki er búið að ákveða á hvaða velli sá leikur verður en við mætum hvert sem er og ætlum alla leið í úrslitin!

Leikskýrsla.

Til baka