BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hangiketið sat í mönnum!

09.01.2016

Blikar urðu að lúta í gras 0:2 gegn ÍBV í fotbolti.net mótinu í Fífunni í morgun. Okkar drengir voru mjög slakir í fyrri hálfleik og fengu á sig tvö mörk. Allt annað var að sjá til liðsins í síðari háfleik en eins og oft í vetur þá vantaði meiri grimmd í teiginn. En segir ekki gamla máltækið ,,Fall er fararheill" og verðum við ekki að vona að það sé staðreynd.

Addi og Kristó eru erlendis og stýrðu Stebbi Gísla og Úlli liðinu í þessum leik. Eitthvað virtist jólahangiketið sitja í leikmönnum í fyrri hálfleiknum. Sendingar voru ónákvæmar, hlaupin ómarkviss og við dekkuðum of langt frá mönnum. Bilið milli varnar og sóknar var allt of mikið þannig að erfitt var að ná upp alvöru spili. Að vísu fékk Andri Rafn tvo þokkaleg færi og Viktor Örn átti einn ágætan skalla að marki Eyjamann. En þar með var það þokkalega upp talið. Varnarmistök og klaufagangur í spili olli því að þeir hvítklæddu nýttu vel tvo færi í fyrri hálfeik.

Þjálfararnir breyttu liðinu töluvert í leikhléi og það skilaði strax árangri. Gulli kom á miðjuna og Höskuldur og Davíð á kantana. Andri Rafn og Atli fóru framar og þetta skilaði sér í miklu betra flæði á boltanum. En inn vildi boltinn ekki!

Við mætum Víking Ólafsvík í næsta leik eftir viku og þá verður Glenn kominn. Einnig vantaði Arnór og Oliver. Gulli var frá en Hlynur stóð sig samt ágætlega í marki. Vonandi sýnum við betri takta í næstu leikjum enda voru margir leikmenn að spila langt undir getu. Það vita þeir best sjálfir og er nánast öruggt að þeir munu spila betur í næsta leik. ​

Fótbolti.net viðtal við Atla Sigurjónsson

-AP

Til baka