BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gummi Pé í Fjölni

10.02.2013

Guðmundur Pétursson hefur söðlað um og skipt yfir til Fjölnis í 1. deildinni. Þar hittir hann annan BikarBlika, Árna Kristinn Gunnarsson, sem hefur spilað með þeim gulklæddu undanfarin tvö ár. Við þökkum rauðhærða ljóninu fyrir góða viðkynningu og óskum honum velfarnaðar í Grafarvoginum.

Guðmundur, sem er uppalinn ÍR-ingur, kom til okkar árið 2009 frá KR og lék 49 leiki með Blikaliðinu í deild og bikar. Hann skoraði 13 mörk í þessum leikjum.

Það eftirminnilegasta er sjálfsagt markið gegn HK í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar árið 2009 á Kópavogsvelli. Það mark kom okkur á Laugardalsvöllinn og sem leiddi til til fyrsta stóra titils í sögu félagsins.

Guðmundur hefur verið mjög óheppinn með meiðsli undanfarin tvö ár og það setti svo sannarlega svip sinn á feril hans hjá félaginu.

Stuðningsmenn Blika hafa hins vegar alltaf haft þennan sterka framherja í miklum metum og verður sjónarsviptir að sjá hann ekki í græna búningnum í sumar.

-AP

Til baka