BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fyrsta tap gegn FH á árinu

19.12.2015

Blikar lutu í gras 0:2 gegn FH í leik um þriðja sætið á BOSE mótinu í Fifunni á föstudaginn.  Þetta var fyrsta tap okkar drengja í öllum keppnum gegn Hafnfirðingum á þessu ári.  Við höfðum unnið tvo leiki og tveir enduðu með jafntefli. En nú voru gestirnir sterkari og unnu sanngjarnan sigur á bitlausu liði okkar. 

Gunnleifur var mættur aftur í markið eftir smávægilega aðgerð á putta og þjálfararnir prófuðu að spila með þriggja manna vörn. Hafsentarnir Elfar Freyr, Damir og hinn nýi U-21árs landsliðsmaður okkar Viktor Örn Margeirsson stóðu vaktina aftast. En vörnin opnaðist nokkrum sinnum frekar illa og einu sinni í hvorum hálfleik nýttu þeir hvítklæddu þau mistök. Þar að auki missti Elfar Freyr sig um fimmtán mínútum fyrir leikslok og lét reka sig út af fyrir hefnibrot. Svoleiðis má auðvitað ekki gerast í alvöru leik þótt hægt sé að horfa í gegnum fingur sér með það á svona æfingamóti. 

Við Blikar héldum boltanum ágætlega úti á vellinum og vorum í sjálfu sér með hann jafn lengi og Íslandsmeistararnir. En eins og í undanförnum leikjum þá vantaði meiri hugmyndauðgi í sóknarleikinn. Við áttum í raun engin færi í leiknum fyrr en við vorum orðnir einum færri. Þá tókum við loksins kipp og sóttum nokkuð hart að marki en án árangurs. 

Flestir leikmenn Blikaliðsins fengu að spreyta sig. Að vísu vantaði Arnór fyrirliða sem er með smávægileg ristarmeiðsli. Svo vantaði auðvitað nýstúdentinn Oliver Sigurjónsson en hann var að útskrifast á föstudaginn með láði frá Menntaskólanum í Kópavogi. Oliver fékk 9.1 í meðaleinkunn og fékk þar að auki verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku. Það er sérstaklega athyglisvert því drengurinn hefur búið meira og minna síðustu þrjú árinn í Danmörku! Við samgleðjumst því með Oliver þótt árangur Blikaliðsins hafi ekki verið til að hrópa húrra fyrir þennan sama dag.

-AP

Til baka