Það sló þögn á okkur Blika þegar við fréttum að félagi okkar Friðjón Fannar Hermannsson hefði óvænt kvatt þennan heim aðeins rúmlega fertugur að aldri. Friðjón…" /> Það sló þögn á okkur Blika þegar við fréttum að félagi okkar Friðjón Fannar Hermannsson hefði óvænt kvatt þennan heim aðeins rúmlega fertugur að aldri. Friðjón…">

BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Friðjón Fannar fallinn frá

21.11.2016
Það sló þögn á okkur Blika þegar við fréttum að félagi okkar Friðjón Fannar Hermannsson hefði óvænt kvatt þennan heim aðeins rúmlega fertugur að aldri. Friðjón Fannar var einn af okkar dyggustu stuðningsmönnum og lét sig sjaldan vanta á völlinn þegar Blikaliðið var að spila. Þar að auki var Friðjón Fannar mikill félagsmálamaður og átti meðal annars sæti í stjórn Blikaklúbbsins í nokkur ár.
 
Eins og margir strákar í Kópavogi hóf Friðjón snemma að æfa knattspyrnu með Blikunum enda átti hann heima nálægt Vallargerðisvellinum. Hann var ef til vill ekki sá öflugasti inn á vellinum en utan vallar var hann einn af lykilmönnunum. Friðjón Fannar var að vísu alltaf hógvær og var lítið fyrir að trana sér fram en alltaf var stutt í brosið og jákvæðnina. Alltaf var hann í góðu skapi og hélt uppi góðum anda í flokknum sínum.
 
Í vinahópi Friðjóns voru margir hressir strákar sem hafa látið til sín taka í stjórnunarstörfum fyrir knattspyrnudeildina. Það var auðvelt að leita til þessa hóps þegar skipuleggja átti herrakvöld, lokahátíðir, skiltauppsetningu, leggja gólf á Fífuna eða hvað annað sem deildin þurfti á að halda. Þar var Friðjón Fannar ávalt reiðubúinn að leggja sitt af mörkum.
 
Friðjón Fannar var góður penni og lagði hann sitt af mörkum í uppbyggingu á vefsíðu okkar blikar.is. Hann skrifaði meðal annars nokkra pistla um leiki Blikaliðsins undanfarin ár. Þar kom vel fram ástríða hans gagnvart knattspyrnunni og Blikaliðinu. Hann var glöggur leikrýnandi, var óhræddur að benda á það sem betur mætti fara en um leið var hann kurteis og uppbyggilegur.
 
Knattspyrnudeild Breiðabliks, Blikaklúbburinn og Blikar.is senda fjölskyldu og ástvinum Friðjóns Fannars innilegar samúðarkveðjur. Minningar um þennan góða brosmilda félaga munu fylgja okkur Blikum um ókomna framtíð.
 
Borghildur Sigurðardóttir og Andrés Pétursson

Til baka