BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Flottur sigur á Fram

09.03.2014
Blikar unnu góðan sigur á Fram 4:3 í bráðfjörugum leik í Lengjubikarnum í Fífunni í gær. Fyrirliðinn Finnur Orri Margeirsson fór á kostum á 23 ára afmælisdaginn sinn og skoraði tvö mörk. Tómas Óli Garðarsson fór einnig mikinn og setti tvö falleg mörk.  Sigur okkar manna var fyllilega verðskuldaður og yfirspiluðum við þá bláklæddu á löngum köflum í leiknum. En klaufaleg varnarmistök gerðu það að verkum að Framarar voru aldrei langt undan en sem betur fer var sóknarleikur okkar nægjanlega beittur til klára leikinn.
 
Margir áhorfendur mættu í Fífuna í gær og fengu þeir fullt fyrir peninginn. Reyndar byrjaði leikurinn ekki gæfulega fyrir okkur því gönuhlaup í vörninni strax á þriðju mínútu leiksins opnaði leið fyrir Safamýrarpiltana til að setja fyrsta markið. En sem betur fer létu okkar drengi ekki slá sig út af laginu og fljótlega jafnaði Finnur Orri leikinn með góðu skallamarki. Eftir þetta tókum við öll völd á vellinum. Tómas Óli var mjög ógnandi í fyrri hálfleik og setti tvö góð mörk. En basl í vörninni rétt fyrir leikhlé gerði gestunum kleyft að minnka muninn. Staðan þvi 3:2 en með smá heppni hefðum við alve getað sett 1-2 mörk  til viðbótar.
 
Blikar voru einnig mun sterkari í síðari hálfleik en náðum samt ekki að auka við forystuna fyrr en fyrirliðinn jók muninn í 4:2 á 80 mínútu. En einbeitingarleysi í vörninni gaf Frömurum eitt mark til viðbótar rétt fyrir leikslok. Í heild getum við hins vegar verið ánægðir með leikinn. Guðjón Pétur og Finnur Orri áttu mjög góðan leik á miðjunni og bakverðirnir Gísli Páll og Halsman studdu vel við sóknarleikinn. Tómas Óli var mjög sprækur sérstaklega í fyrri hálfleik. Breiddin er mikil í liðinu og þegar meiri ró og jafnvægi kemst á varnarleikinn þá getum við horft jákvæðum augum á framhaldið. Stefán Gíslason er mættur til landsins en ekki tókst að ganga frá félagsskiptunum fyrir þennan leik. En hann verður klár í slaginn fyrir næsta leik gegn Keflavík í Reykjaneshöllinni næsta laugardag.
 
Sjá mörkin og klippur úr leiknum.
 
Áfram Breiðablik!
 
-AP

Til baka