BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

FH ekki fyrirstaða

17.11.2018

Blikar unnu góðan 2:1 sigur á FH í Bose-keppninni í meistaraflokki karla i dag. Leikurinn fór fram í Fífunni enda var skítaveður úti. Aron Bjarnason og Arnþór Ari Atlason settu mörk okkar pilta í fyrri hálfleik. Sigurinn var mjög sanngjarn enda vorum við miklu meira með boltann í leiknum. Nánar á úrslit.net >

Blikar stilltu upp nokkuð reyndu byrjunarliði í 3-4-3 kerfi líkt og bikarúrslitaleiknum. Nokkrir ungir og efnilegir leikmenn sem voru á láni á síðasta keppnistímabili fengu þó að hefja leikinn. Þar má nefna Gísla Martin Sigurðsson sem var hjá ÍR, Davíð Ingvason sem var hjá Haukum og Aron Kára Aðalsteinsson sem var hjá Keflavík. Einnig spilaði Ólafur Íshólm Ólafsson allan leikinn í markinu. Svo byrjaði Guðmundur Böðvar Guðjónsson á miðjunni. Allir þessir leikmenn stóðu sig með sóma

Við tókum fljótlega völdin á vellinum og áttum nokkrar ágætar sóknir. Það kom því ekki á óvart að Aron Bjarnason náði forystunni á 10 mínútu leiksins eftir slaka frammistöðu markvarðar andstæðinganna. En því miður sofnuðum við á verðinum og hleyptum gestunum inn í leikinn. Eftir kæruleysislega varnarvinnu náðu Fimleikadrengirnir að jafna leikinn.

En Blikar tóku gleði sína á 35 mínútu þegar snilldarsókn Blika endaði með flottri fyrirgjöf Alexanders Helga á Arnþór Ara sem gat ekki annað að skorað. Síðari hálfleikur var rólegri. Óskar Jónsson kom inn á miðjuna og það var oft unun að sjá hann og Alexander Helga gersamlega dóminera miðjuspilið. Að vísu dróg úr sóknarþunga okkar pilta þegar leið á leikinn en við sigldum sigrinum örugglega í höfn.

Næsti leikur okkar í BOSE er gegn vinum okkar í HK í Kórnum fimmtudaginn 29. nóvember kl.20:00. Það er alltaf gaman þegar þessi tvo lið mætast þannig að við hvetjum alla Blika til að mæta og hvetja okkur til sigurs.

-AP

Mörkin og klippur í boði BlikarTV

Myndaveisla í boði Fótbolta.net >

Til baka