BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fanndís Íþróttakona Kópavogs 2015

12.01.2016

Á hófi hjá Íþróttaráði Kópavogs í gær var tilkynnt að Fanndís Friðriksdóttir hefði verið útnefnd ,,Íþróttakona Kópavogs“ fyrir árið 2015. Í umsögn ráðsins segir:

"Fanndís átti einstaklega góðu gengi að fagna á liðnu tímabili ásamt liðsfélögum sínum í kvennaliði Breiðabliks í knattspyrnu. Liðið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu með miklum yfirburðum, fór taplaust í gegnum mótið og sigraði í sextán af átján leikjum sínum. Óhætt er að segja að Fanndís hafi spilað lykilhlutverk í árangri liðsins enda var hún valinn besti leikmaður Íslandsmótsins í lok tímabils. Þar fyrir utan varð hún einnig markahæsti leikmaður mótsins, skoraði 19 mörk í 18 leikjum. Fanndís var einnig fastamaður í kvennalandsliðinu í knattspyrnu sem spilaði vel á árinu og hefur sigrað fyrstu þrjá leiki sína í undankeppni EM 2017.“

Blikar fagna þessari viðurkenningu enda á þessi frábæri íþróttamaður þessa viðurkenningu svo sannarlega skilið. Þess má einnig geta að Jón Margeir Sverrisson sundmaður var útnefndur Íþróttakarl Kópavogs fyrir árið 2015.

-AP

Til baka