BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fall er fararheill

20.01.2014

Fyrsti heimaleikur Blikaliðsins í meistaraflokki karla árið 2014  fór fram í Fífunni í gær. Andstæðingar okkar voru Grindvíkingar og var leikurinn hluti af Fótbolti.net mótinu. Það er skemmst frá því að segja að strákarnir okkar voru ekki líkir sjálfum sér og töpuðu 2:3 fyrir frískum Suðurnesjapiltum.

Engu likara var en Blikaliðið væri enn í skýjunum eftir góðan sigur á Keflavíkingum um síðustu helgi 2:4. Liðið var skelfilega slakt í fyrri hálfleik og mátti í sjálfu sér þakka að vera ekki nema 0:2 undir í leikhléi.

Leikur liðsins skánaði mikið í seinni hálfleik drifinn áfram af fyrirliða liðsins Finni Orra Margeirssyni sem kom inn á leikhléi.  Árni Vill minnkaði muninn fljótlega í 1:2 með lúmsku skoti langt utan af velli. En aðeins nokkrum andartökum síðar komust Grindvíkingar í 1:3 eftir herfileg mistök í varnaleik Blikaliðsins. Finnur Orri skoraði 2:3 eftir mikla baráttu en lengra komust við ekki. ,, Fall er fararheill“ segir gamalt máltæki og verðum við að hugga okkur við það. 

En Blikaliðið þarf að taka sig heldur betur saman í andlitinu fyrir næsta leik sem er gegn sterku liði FH í Fífunni á laugardaginn kl.11.00.

-AP

Til baka