BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ekki er sopið kálið….

05.08.2012

Blikar spila við Valsmenn á Hlíðarenda í Pepsí-deild karla á miðvikudaginn kl.19.15.  Bæði lið unnu góða sigra í síðustu umferð þannig að það má búast við hörkuleik.

Við unnum fyrri leikinn í ár 1:0 á Kópavogsvelli með marki Elfar Árna Aðalsteinssonar. Líkt og við Blikar hafa Hlíðarendapiltar átt misjöfnu gengi að fagna á þessu móti. Þeir hafa unnið flotta sigra gegn FH og Keflavík en tapað síðan gegn Grindavík og Fram. Þeir eru sem sagt óútreiknanlegir!

Okkur gekk ekkert vel með þá rauðklæddu í fyrra. Við töpuðum á Hlíðarenda og gerðum jafntefli á Kópavogsvelli. Valur hefur eins sigurs forskot á Blika í þeim 13 efstudeildarleikjum sem Ólafur H. Kristjánsson hefur stýrt Breiðabliksliðinu gegn Val frá því að hann tók við Blikum um mitt sumar 2006. Fyrsti leikur Óla með Blikaliðið var einmitt útilekur gegn Val í leik sem fór fram á Laugardalsvelli sem var heimavöllur Valsara það sumar. Frá árinu 2006 hafa Blikar unnið 4 leiki. Jafnteflin eru 4 og Valur unnið 5 leiki. Menn mega því ekki láta góðan sigur gegn ÍBV í síðustu umferð villa sér sýn - við verðum að mæta mjög vel undirbúinir í þennan mikilvæga leik.

Það þarf að hafa mikið fyrir hlutunum gegn KFUM-drengjunum. En ef við náum upp sömu spilamennsku og baráttu og í fyrri hálfleik gegn Vestmannaeyingum þá getum við unnið hvaða lið sem er.Ekkert er hins vegar sjálfgefið í þessari deild. Það er mjög stutt í toppbaráttuna og hugsanlegt Evrópusæti en það er líka stutt í meðalmennskuna. Leikurinn við Val er því gullið tækifæri fyrir Blikaliðið til að sýna hvað í því býrog þoka sér upp töfluna. Og munum að liðið okkar er búið að koma sér í góða stöðu en ekki ná endanlegu markmiði sumarsins.

Áhorfendur þurfa einnig að leggja sitt af mörkum. Aðsókn á leiki hefur ekki verið neitt sérstök en stundum hefur jafnvel myndast betri stemmning á útileikjum en á Kópavogsvelli. Við þurfum því öll að flykkjast á Hlíðarenda og hvetja Blikaliðið og fyrirliðann okkar Finn Orra Margeirsson í150 meistaraflokksleiknum með Breiðabliki.

Þrjú stig í þessum leik gætu fleytt okkur upp í alvöru baráttu um Evrópusæti.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka