BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Dýrmæt þrjú stig í hús!

29.05.2017

Blikar lögðu ÓlafsvíkurVíkinga 2:1 á heimavelli í nokkuð kaflaskiptum leik í Pepsí-deild karla í gærkvöldi. Strákarnir okkar voru mun betri í fyrri hálfleik, ef frá eru taldar fyrstu þrjár mínútur leiksins. Við sóttum af miklum krafti og ákefð í hálfleiknum og uppskárum tvo mjög góð mörk. En einbeitingarleysi í varnarleiknum undir lok hálfleiksins hleypti gestunum inn í leikinn á nýjan leik. Síðari hálfleikurinn spilaðist ágætlega fyrir okkur. Okkar drengir spiluðu af öryggi og tókst þeim bláklæddu ekki að ógna markinu nema að takmörkuðu leyti. Við sigldum þvi þremur stigum í höfn og er það gríðarlega mikilvægt fyrir framhaldið.

Milos tefldi fram nánast óbreyttu liði frá sigurleiknum gegn ReykjavíkurVíkingum í síðustu umferð. Að vísu lenti Michee Efete í umferðarteppu á leið sinni frá Lundarbrekkunni niður á Kópavogsvöll og kom því of seint í leikinn. Viktor Örn tók sæti hans í byrjunarliðinu en Englendingurinn kom inn á frekar skömmustulegur í síðari hálfleik.

Blikar virkuðu frekar hikandi í byrjun leiks og áttu Víkingar tvo ágæt færi strax á upphafsmínútunum. En smám saman tóku Blikar öll völd á vellinum drifnir áfram af mikilli baráttu Gísla og Arnþórs Ara á miðjunni. Við uppskárum tvo mörk í framhaldinu. Það fyrra gerði Arnþór Ari eftir að Martin Lund sendi óvænta sendingu inn fyrir vörn gestanna og Arnþór Ari kláraði færið mjög vel. Hið síðara geri Tokic eftir frábæra uppbyggingu Blikaliðsins. Gulli sendi knöttinn til Damirs og eftir 8-9 sendingar manna á milli var boltanum laumað inn á Gísla í vítateignum vinstra megin, hann sendi knöttinn hárnákvæmt á Tokic sem kláraði færið vel.

Nú héldu flestir hinna þúsund gesta í stúkunni að Blikar myndu láta kné fylgja kviði og skora fleiri mörk. Yfirburðirnir voru það miklir! En því miður féllum við niður á gamla planið að hægja á tempóinu og spila göngubolta frá aftasta manni. Það kom síðan í bakið á okkur þegar gestirnir minnkuðu muninn eftir hornspyrnu skömmu fyrir leikhlé. Þar sofnaði Blikaliðið illilega, bæði gleymdist að dekka mann úti á vellinum og þar að auki fékk einn af lægri leikmönnum Víkinga að skalla knöttinn í netið óáreittur á miðjum markteignum! Þetta er annar leikurinn í röð sem við fáum mark á okkur eftir föst leikatriði en þetta er nokkuð sem við fengum alls ekki á okkur á undanförnum árum. Þetta þarf að laga!

Í leikhléi í Blikakaffinu var margt skrafað. Alfreð Finnbogason heiðraði samkomuna með nærveru sinni og var nokkuð ánægður með sína gömlu félaga. Hann er kominn til landsins að undirbúa sig undir leikinn gegn Króötum og ætlar að mæta á æfingar hjá Blikaliðinu. Einnig hefur Einar Aron landsliðsfyrirliði mætt á æfingar og hefur þetta aukið tempóið á æfingum eins og Damir minntist á í Pepsí-mörkunum.

Eins og fyrri hálfleikur var skemmtilegur þá var seinni hálfleikurinn frekar litlaus. Að vísu fengu gestirnir í raun engin hættuleg færi enda stjórnaði besti maðurinn á vellinum, Damir Muminovic, vörninni eins og herforingi. Við fengum hins vegar besta færi leiksins en markvörður gestanna varði ótrúlega frá Tokic. Svekkjandi fyrir okkur því þá hefðum við lokað leiknum en ,,respect“ á markvörðinn!

Milos þjálfari sagði á samkomu hjá Blikaklúbbnum fyrir leik að hann vildi berja meira sjálfstraust í Blikaliðið. Menn þyrftu að þora að taka menn á, gera eitthvað óvænt og ekki óttast að gera mistök. Greinilegt var að menn eins og Höskuldur, Arnþór Ari og Martin Lund tóku þetta bókstaflega. Þeir voru mjög frískir í leiknum og er gaman að sjá hve mikil leikgleði virðist vera komin hjá Arnþóri Ara og Höskuldi. Haldið þessu áfram strákar! Hins vegar er enn of mikið um sendingarfeila hjá liðinu í heild og við verðum að þora að sýna ákefð, vilja og sóknarbolta í 90 mínútur!

Þessi þrjú stig sem við fengum í leiknum fleyta okkur langt upp töfluna. Sem betur fer eru flest lið að tapa stigum þannig að stutt er í toppbaráttuna. En að sama skapi er líka stutt í botninn. Blikaliðið spilaði frábæran bolta meirihlutann af fyrri hálfleiknum og þar sást hve mikið býr í liðinu. Við þurfum bara að hafa trú á því sem við erum að gera og þá verður sumarið grænt.

Næsti leikur er gegn Skagamönnum uppi á Akranesi á mánudaginn kl.19.15. Þar ætla Blikar að mæta af fullum krafti og vonandi láta stuðningsmenn Blika sig ekki vanta!

-AP

Aðrar umfjallanir og myndir!

Til baka