BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðabliksfjölskyldan 2013

19.12.2013

Miðvikudaginn 18. desember fór fram risastór jólamyndataka í Fífunni þegar Blikafjölskyldan fór í sitt fínasta púss og setti upp sparibrosið fyrir Helga Viðar hirðljósmyndara Breiðabliks.

Undirbúningur og leikstjórn var í höndum Daða yfirþjálfara og Heisa á röltinu sem stýrði hópnum af röggsemi af svölunum þaðan sem myndin var tekin. Til myndatökunnar voru boðaðir allir flokkar Breiðabliks, starfsfólk, stjórnarmenn, sjálfboðaliðar og stuðningsmenn og mætingin var framar vonum í jólaösinni.

Breiðablik rekur stærstu knattspyrnudeild landsins með tæplega 1.300 iðkendum á aldrinum þriggja til sextíu og þriggja. Félagið á lið í 20% leikja á vegum KSÍ og spilaði á þessu ári á þriðja þúsund kappleiki frá Bolungarvík til Kazhakstan.

Þessu starfi er haldið uppi af þjálfurum, stjórn og starfsmönnum ásamt miklum fjölda sjálfboðaliða og stuðningsmanna.

Með myndatökunni vildi félagið sýna að það skipta allir máli sem leggja hönd á plóg til að gera félagið jafn öflugt og raun ber vitni.

Áfram Breiðablik!

Til baka