BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – Víkingur R. föstudagskvöldið 13. maí kl. 20:00

11.05.2016

Lið Breiðabliks og Víkings R hafa mæst 10 sinnum í efstu deild frá árinu 2000. Jafnt er á öllum tölum því Víkingar hafa sigrað í þremur leikjum, Blikar þremur og jafnteflin eru fjögur. Skoruð mörk eru 37 enda helmingur efstu deildar leikjanna frá árinu 2000 miklir markaleikir; 2-6, tveir 2-2 leikir og þrír leikir hafa endað 4-1 þ.m.t. heimaleikir Blika á Kópavogsvelli 14. júní í fyrra og líka heimalekurinn 21. september 2014. Síðasta viðureign liðanna í efstu deild var 2-2 jafntefli í Víkinni sunnudaginn 13. september 2015.

Því má búast við hörkuleik á föstudagskvöldið enda hafa þessi lið eldað grátt silfur saman alveg frá stofnári knattspyrnudeildar Breiðabliks árið 1957.

Fyrsti kappleikur liðanna var 2. deildarleikur sem fram fór Melavellinum 17.7.1957. Leikurinn tapaðist 6-2. Í skrifum um leikinn má lesa m.a. „Lið Kópavogs er sýnilega lítið æft og kann ekki mikið í listum knattspyrnunnar, en þeir eiga mikinn kraft og flýti en það er ekki einhlítt. Leiknin og skilningur á því hvað knattspyrna er, verður að vera með, annars fara menn í flýtinu framhjá knettinum og skilja hann eftir. Vafalaust geta þessir ungu Kópavogsmenn náð miklum árangri en það kemur ekki nema með mikilli vinnu og elju“. Liðin áttust oft við í 2. deildinni og bikarkeppninni næstu árin.

Árið 1962 sigruðum við lið Víkinga 9-0 í 2. deildinni. „Lið Víkings var vita gagnslaust í þessum leik“ skrifar blaðamaður.

Fyrsti stórleikur liðanna var úrslitaleikur í Bikarkeppni KSÍ á Laugardalsvellinum í september 1971, en það merkisár spilaði Breiðablik fyrst í efstu deild frá stofnun deildarinnar árið 1957. Leiðin í bikarúrslitaleikinn gegn Víkingum var ekki auðveld. Blikar unnu lið Keflvíkinga 1-2, Val 2-1 og Fram 1-0 en töpuðu úrslitaleiknum gegn Víkingum 1-0.

Liðin eiga 73 leiki að baki í öllum keppnum inni og úti frá árinu 1957. Tölfræðin í þessum leikjum er nokkuð jöfn. Blikasigrarnir eru 26 á móti 27 sigrum Vikinga og jafnteflin eru 20. Í efstu deild eru leikirnir 34. Þar hafa Víkingar yfirhöndina, 12 sigrar gegn 9 og 13 jafntefli.

Kópacabana stuðningshópur Blika ætlar að fjölmenna á Kópavogsvöll.

Vonandi sjá flestir sér fært að mæta í Kópavoginn og hvetja Blika til sigurs.

Leikurinn er klukkan 20:00 á föstudagskvöldi og veðurspáin er fín.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

- POA

Til baka