Breiðablik tapaði 0:3 fyrir geysilega sterku liði Ajax frá Amsterdam í Evrópukeppni ungmennaliða…" /> Breiðablik tapaði 0:3 fyrir geysilega sterku liði Ajax frá Amsterdam í Evrópukeppni ungmennaliða…">

BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar töpuðu eltingarleiknum

28.09.2016

Breiðablik tapaði 0:3 fyrir geysilega sterku liði Ajax frá Amsterdam í Evrópukeppni ungmennaliða á Kópavogsvelli í dag. Blikastrákarnir stóðu sig samt með sóma en mættu ofjörlum sínum í leiknum. Blíðskaparveður var í Kópavoginum og mættu 840 áhorfendur á leikinn sem hlýtur að teljast mjög góð mæting því leikurinn hófst kl.16.00. 

Gestirnir hófu leikinn mjög vel og strax á fimmtu mínútu náðu þeir forystunni eftir snarpa sókn upp hægri kantinn.  Blikar voru nokkuð taugaóstyrkir í byrjun leiks og náðu ekki upp neinu spili af alvöru. Hollendingarnir pressuðu okkur líka framarlega og við erum ekki vanir að spila undir svona mikilli hápressu.  Við áttum þó eina og eina sókn og úr einni þeirra komum við knettinum í mark Ajax.  En markið var réttilega dæmt af vegna brots á markmanninum. Á 25. mínútu juku þeir hvítklæddu forystuna þegar varnarmaður þeirra skallaði knöttinn nokkuð óvaldaður eftir hornspyrnu frá hægri. Staðan því 0:2 þegar gengið var til búningsherbergja. 

Blikar lögðu áherslu á varnarleikinn í síðari hálfleik og stóðu miðverðirnir Sindri Ingimarsson og Aron Kári Aðalsteinsson sig vel í að stoppa sóknirnar. Miðjumennirni Willum Þór Willumsson og Kolbeinn Þórðarson og reyndar allir leikmenn Blikaliðsins hlupu úr sér lungun í þessum leik. En þeir náðu ekki að koma í veg fyrir þriðja markið þannig að róðurinn verður erfiður í seinni leiknum í Hollandi. 

Íslandsmeistarar Breiðabliks geta samt borið höfuðið hátt eftir þennan leik. Leikmennirnir lögðu sig mjög fram en andstæðingarnir voru of sterkir að þessu sinni. Auðvitað getum við velt fyrir okkur hvort þeir 6-7 leikmenn sem voru lánaðir í sumar hefðu breytt einhverju í þessum leik.  En staðreyndin er sú að svona er Blikaliðið skipað núna og þessir leikmenn lönduðu Íslandsmeistaratitlinum.  

Leikurinn fer í reynslubankann hjá Blikaliðinu og er hægt að hrósa öllum leikmönnunum fyrir mikla vinnusemi.  Þrátt fyrir mörkin þrjú þá var Patrik Sigurður Gunnarsson markvörður einna bestur Blika í þessum leik. Hann varði nokkrum sinnum mjög vel en þess má geta að hann er enn á 3. flokks aldri.  Það verður gaman að fylgjast með þessum ungu og efnilegu Blikum á komandi árum. Við sendum líka hlýja strauma með liðinu fyrir seinni leikinn í Amsterdam um miðjan október.

Brot úr leik Breiðabliks og Ajax frá því í dag í boði Blikar TV

Myndaveisla í boði Blikar TV

P.S. Það vakti nokkrar athygli að Blikar spiluðu grænum stuttbuxum í leiknum í dag. Ástæðan er sú að Ajax átti að spila í útivallasetti sínu sem er alsvart. En Hollendingarnir tóku óvart heimasettið sitt sígilda með og þar með voru bæði lið í hvítum buxum. Við buðumst til að redda málum og skiptum í grænar buxur og svarta sokka. Þar með var búið að redda málum!

-AP

Willum yngri: Hljóp tvöfalt miðað við venjulegan leik

Hér að neðan má sjá myndbönd af mörkunum af Twitter síðu Ajax.

 

Til baka