BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar sneru taflinu við gegn Stjörnunni

30.08.2013

10. umferð PEPSI deildarinnar lauk í kvöld þega Blikar mættu Stjörnunni og KR mætti Val. Þar með léku Blikar sinn 16. leik í deildinni og eiga enn einn leik til góða á öll lið deildarinnar að KR undanskildu. Eins og allir sem fylgjast með fótbolta vita var þetta s.k. sex stiga leikur, enda liðin að berjast á svipuðum slóðum í deildinni og enn til nokkurs að vinna fyrir það lið sem endar ofar á töflunni þegar ,,sú feita syngur (Wagner) í haust.“
Ólafur Helgi brá ekki vana sínum og breytti liðinu frá síðasta leik. Nichlas og Guðjón Pétur komu inn í byrjunarliðið í stað Olgeirs og Tómasar. Olgeir fór á bekkinn en Tommi skrapp á sjúkralistann í stað Guðjóns, en mun ekki dvelja þar lengi. Annars eru allir í toppstandi nema Metúsalem. Hann er hálf slappur, enda hefur rignt ótæpilega í sumar og ekki útlit fyrir að það minnki neitt að ráði.

Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;

Gunnleifur (M)
Þórður Steinar - Sverrir Ingi - Renée - Kristinn J
Nichlas - Andri Rafn - Finnur Orri (F) - Guðjón Pétur
Ellert - Árni Vill

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Elfar Freyr Helgason
Gísli Páll Helgason
Olgeir Sigurgeirsson
Jökull I. Elísabetarson
Arnar Már Björgvinsson
Viggó Kristjánsson

Sjúkralisti;  Rafn Andri Haraldsson – Tómas Óli Garðarsson

Leikbann; Enginn

Leikskýrsla           Myndband

Blikaklúbburinn í samstarfi við VÖRÐ tryggingafélag, aðal styrktaraðila deildarinnar, stóð fyrir upphitun stuðningsmanna í Smáranum. Þar var flott dagskrá með vítakeppni og öllu og svo var velgrilluðum pylsum sporðrennt með PEPSI Max,  og allt hrist saman í tveim hoppuköstulum. Flott stemmning.
Þrátt fyrir heldur þungbúið veður og dimmt í iðjagrænum dalnum í kvöld. Máninn hvergi sjáanlegur og heyrðist heldur ekki í honum. Vindur hægur af suðaustri með úrkomu af og til nánast allan leikinn. Hiti rétt slefaði 10°C og loftraki94%. Völlurinn í prýðilegu standi en nokkuð háll eins og gefur að skilja.

Hin margumtalaða, oft skemmtilega, sjálfhverfa og stundum ofmetna, silfurskeið var mætt til leiks en það féll alveg prýðilega hratt á hana eftir því sem á leikinn leið. Hún er því sennilega ekta og sannkölluð silfurskeið. Gull er allvega ekki merkjanlegt.
En þá að leiknum sjálfum. Það var greinilegt frá byrjun að Blikar ætluðu ekki að bíða eftir neinu og þeir herjuðu af krafti á andstæðingana frá fyrstu mínútu. Gestirnir voru svo sem ekki beinlínis í neinu aukahlutverki en Blikar virkuðu ákveðnari, þó ekki gengi allt upp og sendingar væru eilítið út og svolítið suður. Nichlas var fljótur að stimpla sig inn og átti fyrsta færi leiksins þegar hann klobbaði varnarmann gestanna utarlega í teignum hægra megin og renndi sér svo inn að markinu, en skot hans fór naumlega framhjá fjærstönginni. Vel gert hjá Nichlas og greinilegt að hann var afslappaðri á boltanum en jafnframt  mun grimmari en oft í sumar. Eftir þetta róaðist leikurinn og liðin skiptust á að sækja en varð lítt ágengt upp við mörkin. En á 22. mínútu dró til tíðinda þegar gestirnir sendu langan bolta inn fyrir vörn Blika. Lítil hætta virtist á ferðum og Reneé var næstur boltanum en Garðar Jóhannsson í humátt á eftir. Skipti engum togum að Garðar spólaði í Reneé og reif og togaði í báðar axlir og komst með því fram fyrir okkar mann. Með þessari aðferð náði hann boltanum og lék með hann inn að markteigshorni og rendi knettinum fyrir markið. Þar voru tveir Blikar á móti einum úr liði andstæðingann og einhvern veginn  náði sá boltanum og tróð honum í netið. Staðan orðin 0-1 gestunum í vil og Blikar voru vægast sagt ósáttir. Einkum og sérstaklega út í aðstoðardómarann stúkumegin, sem virtist algjörlega úti á túni, en hlaut að sjá þetta. Hörmuleg dómgæsla og ekki í fyrst sinn sem aðstoðardómarar eru að gera okkur grikk í sumar. Skagmönnum gefið mark um daginn, rangstöðumark Fram í undanúrslitum bikarkeppninnar dæmt gilt, og nú þetta. Er ekki komið nóg af svona rugli?  Dómaranefnd KSÍ væri nær að skerpa einbeitingu sinna manna í stað þess að vera með ofuráherslu á samlitar undirbuxur og sokkateip leikmanna. Rugl !
Það má reyndar segja dómaranum til málsbóta að hann fékk litla hjálp og stundum verri en enga frá þeim sem hana áttu að veita en þeim mun öflugri ,,leiðbeiningar“ og köpuryrði frá þeim sem voru ekki par sáttir við það sem fram fór og gilti það um stuðningsmenn beggja liða.
Það má hinsvegar segja okkar mönnum til hróss að þeir tóku þessu mótlæti af stóískri ró svona þegar mesti hitinn var rokinn úr þeim og gerðu það eina rétta í söðunni. Þeir tóku leikinn einfaldlega í sínar hendur. Og næstu 20 mínúturnar dundu sóknirnar á Stjörnumönnum. Fyrst átti Nichlas skot sem varnarmaður komst fyrir og bjargði í horn. Árni komst einn gegn markmanni en sá síðarnefndi bjargaði í horn og svo kom besta færi leiksins fram til þessa þegar Kristinn sendi boltann inn fyrir vörn gestanna eftir góðan sprett. Nichlas náði boltanum á undan úthlaupandi markamanni og varnarmanni, lék á markmanninn en átti svo slakt skot á tómt markið, utanfótar og laust með hægri. Boltinn lötraði að markinu en varnarmaður náði að hreinsa frá í tæka tíð. Þarna átti Nichlas að gera betur, og með vinstri fæti. Skilaboðin til hans eru einföld : ,,Man kan også score mål með venstre ben Nichlas ! Det ved du godt og det har du gjort.“
Það sem eftir lifði hálfleiks sóttu okkar menn ákaft en gestirnir vörðust ákaft og björguðu nokkrum sinnum fyrir horn og í horn en eiginleg markfæri voru ekki teljandi. Sennilega voru Stjörnumenn því samt fegnastir þegar dómarinn flautaði til leikhlés. Staðan í hálfleik 0-1 og það var eiginlega alveg ótrúlegt.

Stuðningsmenn Blika voru upp til hópa alveg urrandi illir í hálfleikskaffinu. Annáluðum rólyndismönnum svelgdist á kaffinu og sumir voru svo heitir og viti sínu fjær að þeir gleymdu að graðka í sig góðmetið í hálfleiknum og voru þar af leiðandi með garnirnar gaulandi framan af seinni hálfleik. En gott kaffi er gott, ef því fylgir mjólk. Flestir voru hinsvegar sannfærðir um að það kæmu fleiri mörk, og réttu megin, þó þeim litist ekki á færanýtingu okkar manna í fyrri hálfleik. Stemmningin í Blikakaffinu var þannig dálítið sérstök og menn biðu óþreyjufullir eftir seinni hálfleiknum. En svona getur þetta orðið þegar mönnum finnst sér misboðið leik eftir leik. Þetta var birtingarmynd þess.
KSÍ verður að gera meiri kröfur til dómara og skilja hafrana frá sauðunum. Þetta er einfaldlega ekki boðlegt.

Hvorugt liðið virtist ná almennilegum tökum á leiknum í byrjun síðari hálfleiks og byrjunin var keimlík byrjun leiksins. En svo dró til tíðinda í kjölfar þess að Blikar fengu hornspyrnu. Gestirnir náðu að skalla frá og út fyrir teig en þar var Bliki em skallaði að bragði inn í teig aftur og eftir klafs barst boltinn til Sverris sem reyndi bakfallsspyrnu sem fór framhjá markinu. Einhverjir Blikar settu hendur á loft og heimtuðu vítaspyrnu, og fengu. Stjörnumenn ekki par sáttir við dómarann, sem var hinsvegar alveg viss í sinni sök og Guðjón Pétur þrumaði boltanum í netið. Staðan 1-1. Sennilega var þetta hinsvegar rangur dómur því boltinn virtist fara ofarlega í síðu leikmanns Stjörnunnar, en ekki i hendina. En um það skal ekki fullyrt 100% enda er okkur slétt sama um það eftir það sem á undan var gengið. Stjörnumenn gáfu verulega eftir við þetta og okkar menn náðu góðum tökum á leiknum og héldu nú boltanum mun betur en fram að til þessa. Andri fékk þokkalegt skallafæri en hefði kannski mátt gera betur. Allvega var skallinn fremur laus og auðveldur viðureignar fyrir Ingvar í markinu. Skömmu síðar náðu Blikar svo forystunni og markið var sannkallað glæsimark. Blikar létu boltann ganga vel sín á milli og létu gestina elta, boltinn út á hægri kant og fram, svo til baka inn á miðjuna, aftur til baka og alla leið til Gunnleifs í markinu. Hann sendi rakleitt út á vinstri kantinn á Kristinn J eða Guðjón og þeir teiknuðu laglega þríhyrninga en sendu svo boltann á Ellert sem hafði talsvert pláss inni á miðjunni. Hann sneri og keyrði í átt að vörn gestanna þar sem voru a.m.k 3 samherjar í fínum stöðum. Ellert vippaði boltanum innfyrir vörnina á Nichlas sem hljóp inn í teig, lék þar laglega á varnarmann og renndi svo boltanum í nærhornið. Frábært mark og aðdragandinn ekki síðri. Áhorfendur í stúkunni réðu sér ekki fyrir kæti og sleiktu út um enda dálítið umliðið síðan Blikar hafa boðið upp á svona kræsingar. 2-1 fyrir Blika og nú voru þeir ,,..langbestir í náranum, Blikarnir í Smáranum!“
Blikar réðu nú lögum og lofum á vellinum og greinileg komin örvænting og pirringur í lið gestanna og vælubíllinn í stanslausum ferðum um allan völl. Oftast var Garðar undir stýri og alveg með ólíkindum hvað sá maður nennir að tuða í dómaranum út af nánast öllu. Hann er verri en Guðmann var á ,,góðum degi“ þegar hann var sem verstur hér í den, á táningsaldri, og var hann nú ekki sérstakur þá. En allir hafa sinn stíl. Stjörnumenn gerðu svo tvöfalda skiptingu og settu Tryggva og Gunnar Örn inn og freistuðu þess að hressa upp á sinn leik og auka við hæðina í framlínunni hjá sér. Það hefur stundum virkað vel fyrir þá. En Blikar létu sér ekki bregða og skömmu síðar hefði Nichlas átt að gera út um leikinn. Blikar náðu skyndisókn og Árni sendi frábæra sendingu þvert innfyrir flata vörn gestanna á Nichlas sem kom á fleygiferð og stefndi rakleitt á móti úthlaupandi markverðinum. Nichlas tók skotið og það var hárfínt framhjá. Hefði kannski getað leikið á markvörðinn, en gerði það ekki og átti náttúrulega bara að skora. Þetta hefði getað orðið okkur dýrkeypt því skömmu síðar mátti litlu muna að gestirnir jöfnuðu en skalli þeirra fór naumlega framhjá. Blikar settu nú Elfar Frey inn á í stað Ellert og þeir fengu báðir dynjandi lófaklapp. Elfar mikill stríðsmaður og Ólafur Helgi ætlaði honum eflaust að eig við hávaxna sóknarmenn Stjörnunnar, og ekki vanþörf á því nú fóru þeir að dæla háum boltum í auknum mæli inn á teiginn. Og í tvígang mátti litlu muna að þeir jöfnuðu undir lok leiksins en í annaðskiptið náði Finnur að setja pressu á sóknarmanninn en í hitt skiptið fékk Stjörnumaður frían skalla á markteigshorni en honum brást sem betur fer bogalistin. Arnar Már kom inn fyrir Nichlas skömmu fyrir leikslok en Arnar hefur einmitt verið sérlega lunkinn við að skora gegn sínum gömlu félögum eftir að hann hafði vistaskiptin. En það tókst honum ekki nú og fleiri urðu mörkin ekki í þessum leik. Þar með unnu Blikar sinn níunda sigur í PEPSI deildinni og eru nú fjórða sæti með 32 stig eftir 16. leiki. Stjarnan er með 34 stig í 3ja sæti og hefur leikið einum leik meira. Enn er verk að vinna fyrir okkar menn. Þeir voru flottir í kvöld, eins og þeir hafa verið undanfarið, en nú lögðu menn á sig aukakrókinn sem oftast þarf til að ná markinu. Það var meiri grimmd en í undanförnum leikjum, og fótboltinn ekki síðri. Uppskeran var eftir því.
Enn og aftur fóru margar hornspyrnur forgörðum og náðu ekki framhjá fremsta varnarmanni, en að öðru leyti var þetta góð frammistaða.

Næsti leikur Blika er á sunnudaginn, gegn Fylki, og hann hefst kl.18:00.
Í PEPSI deildinni getur enn allt gerst þó KR hafi unnið í kvöld og haldi þar með forskotinu á önnur lið. Vonir Stjörnumanna um stóran bikar dvínuðu þó heldur í kvöld, en hjá okkur er þetta einfalt. Við þurfum að vinna næsta leik, svo sigurinn í kvöld telji að fullu.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka