BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar skelltu Skaganum

10.02.2016

Blikar unnu Skagamenn 1:0 í æfingaleik í Fífunni í kvöld. Það var Jonathan Glenn sem setti markið skömmu fyrir leikhlé. Töluverð keyrsla var í leiknum enda fengu hátt í 40 leikmenn að sýna snilli sína í báðum liðum. Sigur Blika var sanngjarn og var fyrri hálfleikurinn einn sá besti sem þeir grænklæddu hafa spilað í vetur. 

Nokkur harka var í byrjun leiks enda höfðu leikmenn fengið þau skilaboð að keyra á fullu í 45 mínútur. En fljótlega tóku heimamenn flest völd á vellinum og fengum við nokkur ágætis marktækifæri. Glenn skaut meðal annars í stöng og Ellert og Andri Rafn fengu góð tækifæri. En svo var það skömmu fyrir leikhlé að markvörður Skagadrengja missti boltann og gammurinn Glenn var mættur og setti tuðruna í netið. 

Bæði lið skiptu algjörlega nýju liði inn á eftir tehléið. Kári Nestor* stýrði þriggja manna vörn eins og herforingi og ungir og efnilegir strákar eins og Ágúst Hlynsson sýndu góða takta.  Sergio dansaði oft með boltann skemmtilega upp kantinn en klappar tuðrunni stundum óþarflega mikið. Hlynur kom í markið í síðari hálfleik og varði m.a. meistaralega skalla undir lok leiksins. Síðan má ekki gleyma frábærum leik Alfons Sampsted í hægri bakverðinum í fyrri hálfleik. Þessi 17 ára strákur ógnaði sífellt með hraða sínum og krafti. Ef hann nær að koma meiri gæðum í fyrirgjafirnar sínar þá mun hann fara langt í það að spila sig inn í liðið í sumar. 

Ljóst er að breiddin er að aukast mikið í Blikaliðinu. Ungir og efnilegir leikmenn eins og Óskar Jónsson og Ernir Bjarnason eru að veita öðrum leikmönnum verðuga keppni. Svíinn Pontus Nordenberg átti fínan leik í vinsti bakverðinum. Þetta er sterkur og fljótur leikmaður með góða boltameðferð. Það verður áhugavert að sjá hvort honum verður boðinn samningur. 

Næsti leikur Blikaliðsins er gegn Fylki í Lengjubikarnum á laugardagin í Fífunni kl.11.15.  

*P.S. Þættinum hefur borist bréf með fyrirspurn. ,,Hvað meinið með þessu að kalla Kára Nestor? Er það einhver sjúkdómur eða bölbæn?" Nei, svo sannarlega ekki. Orðið ,,Nestor" kemur úr grísku og þýðir vitur, lífsreyndur maður. Oftast notað um þá sem hafa mestu reynslu í hóp og menn líta upp til og læra af. Kári Ársælsson er því vel að nafnbótinni Nestor kominn. 

Til baka