BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar mörðu Val 1-0 á Kópavogsvelli í Pepsí-deild kvenna

04.07.2012

 

Blikastelpur tóku á móti valkyrkjunum úr Val ásamt stuðningsmönnum þeirra í hörkuleik á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Blikastelpur byrjuðu leikinn vel með hröðum sóknarbolta fyrstu mínúturnar sem skilaði sér fljótlega í marki frá Rakel Hönnudóttur á 7 mínútu. Valsstelpur voru þó fljótar að komast inn í leikinn og urðu Blikastelpum snemma erfiður ljár í þúfu þar sem þær náðu undirtökunum á miðjunni. Nutu þær til þess öflugs stuðnings sinna manna á pöllunum sem börðu bumbur og hrópuðu undarlega digrum karlarómi - Vaaalur! Verður að segjast að hvatningarhróp stuðningsmanna Blika frekar hjáróma í samanburði. Að öðru leiti einkenndist fyrri hálfleikur af frekar ómarkvissu spili Blika sem misstu boltann allt of fjótt yfir til Vals sem snéri þá jafnharðan vörn í sókn. Góð markvarsla og varnarvinna Blika kom þó í veg fyrir að Val yrði kápan úr því klæðinu.


Í seinni hálfleik skiptu Blikar um takt og hófu sóknir sínar gjarnan á því að spila rólegan vals í vörninni þar sem boltinn gekk á milli þriggja öftustu varnarmanna meðan leitað var vænlegu færi á að sækja lengra fram. Reyndist þetta betur en fátið í fyrri hálfleik og skilaði sér í markvissari sóknum og fleiri marktækifærum. Valsstelpur áttu líka sín færi í seinni hálfleik og stóð Bikum þó nokkur ógn af þeim. Þrátt fyrir nokkur ágæt tilþrif hjá báðum liðum í seinni hálfleik vildi boltinn ekki í netið og lauk því viðureigninni 1 – 0 fyrir Breiðablik.
Sem sagt ekkert burst en þrjú stig í höfn sem kemur Blikum úr 4. upp í 2. sæti í deildinni.


Sætasti sigurinn í deldinni samkvæmt aðstoðarþjálfara Breiðabliks, hægt er að skoða viðtal við hann hér.

Hægt er að skoða myndir úr leiknum hér.

Stöðu í deildinni og úrslit úr öðrum leikjum má sjá hér.

Til baka