BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar í vondum málum

23.06.2014

Blikar sóttu ekki gull í greipar Víkinga í sumarblíðunni í Fossvogsdal í gærkveldi.
Það var sólríkt NV hægviðri og aðstæður til knattspyrnu voru með allra besta móti. Góður völlur, gott veður og fjöldi manns mættur á völlinn. Margir vongóðir Blikar í stúkunni sem vonuðst eftir sigri í kjölfar sigurs gegn Þórsurum á fimmtudaginn í Borgunarbikarnum.

Byrjunarlið Blika;

Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Gísli Páll Helgason- Stefán Gíslason - Elfar Freyr Helgason  - Arnór Aðalsteinsson
Tómas Óli Garðarsson - Finnur Orri Margeirsson  - Andri Yeoman – Guðjón Pétur Lýðsson
Elvar Páll Sigurðsson  -  Árni Vilhjálmsson

Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Olgeir Sigurgeirsson
Elfar Árni Aðalsteinsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Davíð Kristján Ólafsson
Guðmundur Friðriksson
Höskuldur Gunnlaugsson

Sjúkralisti
Ellert Hreinsson (fór í aðgerð v. kviðslits og verður kominn á skrið aftur eftir c.a. 2 vikur)

Blikar hófu leikinn ágætlega og gáfu heimamönnum lítinn frið. Pressuðu hátt og um allan völl. Það gekk nokkuð vel og okkar menn náðu ágætum tökum á miðjunni og hirtu boltann jafnharðan af heimamönnum. Færin létu þó á sér standa, en Blikar gerðu sig líklega. Fyrsta korterið gekk þetta svona og ef eitthvað var óx okkar mönnum ásmegin. En ógæfan var rétt handan við hornið. Eftir flotta sókn okkar manna, sem rann út í sandinn, náðu heimamenn skyndisókn sem endaði með fastri fyrirgjöf frá hægri, inn á markteig, þar sem sóknarmaður þeirra setti boltann af stuttu færi í netið.  Þarna vorum við gripnir í bólinu og það hafði harkalegar afleiðingar. Staðan 1-0 fyrir heimamenn.
Eftir þetta sóttum við stíft og vorum mun meira með boltann allt til loka hálfleiks, en færin létu á sér standa. Besta færi Blika fékk Tómas Óli, sannkallað dauðafæri, eftir að heimamenn réttu okkur boltann á silfurfati, en skotið fór víðsfjarri markinu. Svona færi verður að nýta. Smám saman dofnaði yfir leiknum og þó við værum talsvert meira með boltann náðum við ekki að skapa neina hættu að ráði við mark heimamanna. Feilsendingar voru legío og er það umhugsunarefni hve sendingargeta okkar manna er skelfileg. Slag í slag vorum við í góðum stöðum sem var klúðrað með lélegum sendingum, eða röngum ákvörðunum. Allt of lausar innanfótar sendingar, boltanum lyft frá jörðinni, eða reynt að taka utanfótar snuddur eða á hælinn. Maður leiðir hugann að því hvort menn haldi að þeir séu í léttum reitabolta, eða á léttri æfingu eftir keppnistímabil. Kæru- og hugsunarleysið virðist stundum vera slíkt.

Staðan í hálfleik því 1-0.
 ,,Og síðan kom örstutt hlé og allir fengu sér te“ – sungu Roof Tops hér um árið í ,,Sjúkum draumi um lasið blóm“. En það er önnur saga, og þó. Í hléinu varð mönnum tíðrætt um að Blikar væru, sem fyrr,  ekki að skapa nógu mikið fram á við og sendingar stundum alveg óskiljanlega lélegar. Og nú er frjókornatími og því var allt í senn, hóstað, sogið upp í nef og snýtt sér.

En hafi sendingar og spil verið alls ófullnægjandi í fyrri hálfleik, og þó brá af og til fyrir góðum köflum þá, þá var það hátíð miðað við upphaf seinni hálfleiks. Heimamenn voru mun frískari og börðust um allan völl. Við fórum í dútl og hangs. Hangið á boltanum lon og don og sendingar slakar. Það er varla að maður muni eftir að okkar menn hafi tengt saman 2, hvað þá 3 sendingar fyrr en heimamenn voru orðnir manni færri. Það var eins og menn skildu ekki að við værum undir og leikurinn að tapast!  Í raun gerðist ekkert fyrr en heimamenn björguðu skalla Arnórs á línu eftir 65. mínútu eða þar um bil. Blikar settu Elfar Árna, Davíð og Olgeir inná en allt kom fyrir ekki. Svo fauk annar maður út af hjá heimamönnum þegar lítið var eftir. Þá vorum við reyndar búnir að sækja töluvert og ná smá pressu, en færin voru ekki teljandi. Undir lokin munaði þó mjóu að Arnór næði að skora en það var stöngin út og Ingvar varði í kjölfarið frá Árna. Arnór átti tvær hættulegustu tilraunir okkar manna og hann er bakvörður .... hvar voru hinir?
Síðustu mínútur einkenndust svo af óðagoti og örvæntingu okkar manna og við létum heimamenn algjörlega slá okkur út af laginu þar sem þeir lágu emjandi um allan völl. Fókusinn farinn veg allrar veraldar, hafi hann verið til staðar.
Niðurstaðan 1-0 sigur heimamanna.

Nú kann að vera að einhverjum þyki þetta neikvæð sýn á leikinn og það er hún vissulega. En staðan er einfaldlega grafalvarleg og nú er ekki tími fyrir léttúð eða gamanmál. Það þarf að hrista heldur betur upp í hlutunum. Liðið er alls ekki að virka og það er stundum eins og menn sé í einhverri lystireisu að gera bara eitthvað. Taka hann svo á hælinn þegar þeir virðast ekki ráða við einfaldar sendingar á næsta mann. Hér verður að verða algjör hugarfarsbreyting STRAX ef ekki á illa að fara og það er alveg ljóst að það verður að styrkja leikmannahópinn í félagaskiptaglugganum. Núverandi leikmannahópur virðist hvorki vera nógu sterkur andlega, eða knattspyrnulega (eins og stundum er sagt) til að ráða við verkefnið. 6 stig eftir 9 leiki, segir allt sem segja þarf.

Það breytir hinsvegar ekki því að stuðningsmenn, sem fjölmenntu í Víkina í gær, þurfa að halda áfram að mæta á völlinn og hvetja strákana og sýna þeim og þjálfurunum stuðning. Það verða allir að halda áfram og gera betur og halda haus. Annað er ekki hægt.
En það dugar ekkert hálfkák. Það þarf 100% einbeitingu allra sem að þessu koma til að koma skútunni á réttan kjöl. Allra.

Næsti leikur er gegn Þór 2.júlí. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að sá leikur verður að vinnast.

Við mætum.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka