BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Atli Þórsson fallinn frá

04.03.2018

Á morgun, mánudag, verður stórBlikinn Atli Heiðar Þórsson borinn til grafar frá Digraneskirkju. Hann féll frá í síðustu viku langt fyrir aldur fram einungis 58 ára gamall.  Það er stórt skarð höggið í raðir okkar Blika því Atli Heiðar hefur verið virkur í starfi knattspyrnudeildar Breiðabliks í næstum þvi 30 ár. Hann tók fyrst sæti í stjórn knattspyrnudeildar árið 1989 sem gjaldkeri deildarinnar og sinnti því starfi í tvo ár. Síðar varð hann formaður meistaraflokksráðs kvenna og átti einnig sæti í meistaraflokksráði karla. Hann var einnig óþreytandi að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd ýmissa móta og uppákoma sem deildin stóð fyrir meðal annars Símamótið, uppskeruhátíðir, getraunastarfi, stofnun Blikaklúbbsins og undirbúningi fyrir Evrópuleiki Blika. Fyrir sitt ómetanlega starf fyrir knattspyrnuna veitti aðalastjórn Breiðabliks honum nafnbótina SilfurBliki árið 2003. 

KSÍ naut einnig krafta Atla um langt árabil. Hann átti sæti í kvennanefnd KSÍ í mörg ár, sat í mótanefnd og var virkur í starfi varðandi kvennaboltann. Þrátt fyrir að Atli Heiðar hafi ekki átt formlegt sæti í stjórn knattspyrnudeildar um nokkurt skeið þá var ætið virkur í starfi deildarinnar. Það voru ekki margir leikir, bæði karla og kvennaflokki, sem Atli mætti ekki á. Hann var ekki skoðanalaus maður og var óhræddur að tjá sig um gengi liðsins okkar. Vinnufélagar hans segja að þeir hafi ætið séð á honum á morgnana hvort Blikaliðinu hafi gengið vel eður ei. 

Það verður tómlegra á Blikasvæðinu án Atla. En minning um góðan dreng og eðalBlika mun lifa meðal okkar Blika.  Stuðningsmannasíðan Blikar.is og Blikaklúbburinn senda aðstandendum og vinum Atla samúðarkveðjur..

Atli Heiðar Þórsson verður jarðsunginn frá Digraneskirkju á morgun, mánudag 5. mars kl 13:00.

Til baka