BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Allir sigurvegarar í styrktarleik!

30.11.2018

Blikar unnu HK 2:5 í fjörugum leik í síðasta leik riðlakeppni BOSE mótsins í Kórnum í gærkvöldi. En úrslitin voru ekki aðalatriðið því samstaðan og samheldnin sem menn sýndu til að standa við bakið á Bjarka Má Sigvaldasyni og fjölskyldu hans var það sem skipti megin máli. Um 800 manns mættu í Kórinn til að styðja við bakið á þessu unga hugrakka fólki en eins og flestir vita þá glímir Bjarki Má við illvígt krabbamein. Knattspyrnan sýnir hér enn og aftur hve mikið sameiningartákn hún er!

En þá að leiknum sjálfum. HK-ingar byrjuðu af miklum krafti og greinilegt að þeir ætluðu að sýna sínum fyrri leikmanni Bjarka Má hvað í liðið er spunnið. Blikavörnin var hins vegar óvenju óörugg fyrstu mínútur leiksins.
Það kom því ekki á óvart að þeir rauðklæddu komust yfir með marki frá Birki Val Jónssyni á sjöttu mínútu eftir að Blikum hafði mistekist hvað eftir annað að hreinsa frá.

En Alexander Helgi Sigurðsson jafnaði fljótlega leikinn með gullfallegu marki beint úr aukaspyrnu. Aron Bjarnason  kom síðan Blikum yfir með flottu marki eftir mikið einstaklingsframtak. En Blikavörnin svaf aftur á verðinum og Dagur Austmann jafnaði leikinn. Þá mætti Alexander Helgi hins vegar aftur til leiks og smellti boltanum í markið aftur beint úr aukaspyrnu. Þessi drengur er snillingur! Það var síðan bakvörðurinn snjalli Davíð Kristján Ólafsson sem í raun kláraði leikinn með góðu marki rétt fyrir leikhlé. Sex mörk í einum hálfleik og því hægt að segja að áhorfendur hafi fengið mikið fyrir peninginn!

Leikurinn róaðist töluvert í síðari hálfleik. Blikar héldu boltanum að mestu leyti án þess þó að skapa mörg opin færi. HK-ingar vörðust vel en náðu ekki að koma í veg fyrir gott mark frá hinum unga og efnilega Benedikti Warén. Það mark kom eftir góðan undirbúning besta manns vallarins, Arons Bjarnasonar.

Lokatölur urðu því 5:2 og Blikaliðið því komið í úrslit í BOSE bikarnum annað árið í röð. Þar mætum við KR-ingum en ekki er komið á hreint hvar og hvenær sá leikur verður.

Blikar notuðu 22 leikmenn í leiknum í gærkvöld. Þar af nokkra unga og efnilega leikmenn eins og til dæmis markaskorarann Benedikt V. Warén (2001), Eirík Þ. Blöndal (2001), Stefán Inga Sigurðarson (2001) og Andra Fannar Baldursson (2002). 

Bæði HK og Breiðablik eiga heiður skilið fyrir frammistöðu sína í gær. Leikurinn var hin besta skemmtun fyrir áhorfendur og virðingin sem leikmenn sýndu Bjarka Má og fjölskyldu hans var til fyrirmyndar. Knattspyrnan lifir!

BlikarTV: Viðtal við Bjarka og mörkin úr styrktarleiknum. Tómas Meyer og Magnús Valur Böðvarsson lýstu leiknum. Tómas Meyer tók einnig viðtal við Bjarka Má fyrir leikinn. Meira>

Myndaveisla í boði Fótbolta.net. Meira>

Allir geta lagt sitt að mörkum með því að leggja inná styrktar reikning fjölskyldu Bjarka: 130-26-20898, kt. 120487-2729.

Til baka