BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ágætur sigur á Leikni

17.12.2016

Blikar unnu Leikni úr Breiðholti 4:2 í æfingaleik í Fífunni í gærkvöld. Staðan í leikhléi var 2:1 en lokatölur urðu 4:2 eftir að Breiðhyltingar höfðu jafnað leikinn um miðjan síðari hálfleik.  Mörk Blika settu Arnór Gauti, Gunnlaugur Hlynur (víti), Gummi Friðriks og Arnþór Ari. 

Eins og í undanförnum leikjum þá tefldu þjálfararnir fram blönduðu liði yngri leikmanna og svo eldri og reyndari rebba. Nokkuð jafnvægi var með liðunum tveimur í fyrri hálfleik en gestirnir komust yfir með fallegu vippumarki á 26 mínútu. Þá hrukku okkar piltar í gang og Arnór Gauti lét finna fyrir sér. Fyrst gerði hann gott mark eftir flotta sendingu Ólafs Hrafns og svo fiskaði hann víti sem Gunnlaugur Hlynur skoraði örugglega úr. 

Blikar tóku öll völd á vellinum í síðari hálfleik. Við sóttum stanslaust en náðum ekki að skapa okkur nægjanlega góð færi. Að vísu þrumaði Arnþór Ari einu sinni í stöng en annars vorum við bara að dúlla okkur í reitabolta úti á vellinum. En þá kom óvænt jöfnunarmark frá gestunum. Aftur hrukku okkar piltar í gang og kláruðu leikinn með tveimur ágætum mörkum frá Gumma Friðriks og Arnþóri Ara. 

Tveir ungir og efnilegir drengir úr 2. flokki, Sindri Þór Ingimarsson og Davíð Ingvarsson, þreyttu frumraun sína með meistaraflokki í þessum leik og stóðu sig með sóma.  Ágætis taktar sáust hjá mörgum okkar drengjum og verður erfitt fyrir þjálfarana að skera hópinn niður eftir áramótin.  En þeir fá víst borgað fyrir að taka slikar leiðinlegar ákvarðanir!

Til baka