BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Afturelding ekki mikil fyrirstaða

11.11.2013

Blikaliðið spilaði sinn fyrsta æfingaleik á tímabilinu. Andstæðingar okkar voru ungmennafélagar okkar úr Mosfellsbænum, Afturelding, sem mættu með nýjan þjálfara Atla Eðvaldsson. Það er skemmst frá því að segja að við sýndum UMSK-félögum okkar litla gestrisni og lögðum þá örugglega 5:1.

Það voru þeir Páll Olgeir Þorsteinsson (2), Guðmundur Friðriksson, Ellert Hreinsson og Kristinn Jónsson sem settu mörk okkar pilta.

Guðmundur Benediktsson stjórnaði Blikaliðinu í fjarveru Ólafs Kristjánssonar sem er erlendis. Margir ungir og efnilegir leikmenn fengu tækifæri í þessum leik og fengu yfir 20 leikmenn að spila þennan leik.

Í liðið vantaði marga lykilmenn frá síðasta sumri eins og Tómas Óla, Andra Rafn, Sverri Inga, Árna Vill og Olgeir en samt var liðið að sýna ágæta takta á köflum.

Það vakti athygli að í markinu stóð Aron Snær Friðriksson, 16 ára strákur, sem var að ganga upp úr 3. flokki.

Páll Olgeir syndi lipra takta og skoraði tvö mörk. Einnig vakti góð innkoma ungu drengjanna Ingibergs Óla og Hermanns Ármannssonar í síðari hálfleik athygli.

Um næstu helgi hefst æfingamót Fjölnis og þar spilum við á móti sterkum liðum eins og FH og Fjölni. Óstaðfestar fréttir herma að við leikum gegn FH á laugardaginn kl.11.00 í Fífunni.

-AP

Til baka